Lífið

Sló í gegn á Grænlandi

Vísir frumsýnir hér nýtt sýnishorn úr grænlensku hryllingsmyndinni Skuggarnir í fjöllunum, sem verður frumsýnd í Bíó Paradís á föstudag. Myndin er sú langvinsælasta sem hefur verið sýnd á Grænlandi, af 50 þúsund íbúum landsins borguðu 17 þúsund sig í bíó til að sjá hana.

Freyr Líndal Sævarsson er myndatökumaður myndarinnar. „Þetta var þvílíkt ævintýri. Það kom mér á óvart hve margir Grænlendingar eru virkilega hæfileikaríkir án þess að hafa „professional" reynslu," sagði Freyr í viðtali við Fréttablaðið í sumar.

Freyr fékk verkefnið, sem er hans fyrsta sem tökumaður, í gegnum stelpu sem var með honum í European Film College í Danmörku. Hann hefur aðra hryllingsmynd á ferilsskránni, Reykjavík Whale Watching Massacre, þar sem hann vann við lýsingu.

Skuggarnir í fjöllunum, eða Qaqqat Alanngui, segir frá hópi grænlenskra ungmenna sem fara í útskriftaferð í fjallaskála fjarri mannabyggð. Brátt fara þau að skynja að þau séu ekki ein og byrjar þá barátta uppá líf og dauða. Þetta er önnur grænlenska myndin sem hefur verið gerð þar í landi sem hefur fengið fjármagn til framleiðslu. „Fólk hefur ekki séð svona í grænlenskri menningu," segir hann og á þar við þjóðsagnakenndan blæ myndarinnar og grænlenskt talið í þokkabót.

Leikstjóri og handritshöfundur er Malik Kleist. Freyr tók myndina upp á Canon 5D-myndavél og notaðist við náttúrulega lýsingu en kostnaðaráætlun hennar hljóðaði upp á 46 milljónir króna. Allir leikararnir og tökuliðið komu frá Grænlandi nema Freyr.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.