Körfubolti

Ármann mætti ekki til leiks - Ísfirðingar ósáttir

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Íþróttahúsið Jakinn á Ísafirði.
Íþróttahúsið Jakinn á Ísafirði. Mynd / vverk.is
Ekkert varð af viðureign KFÍ og Ármanns sem fram átti að fara í 1. deild karla í körfuknattleik á Ísafirði í gærkvöld. Á heimasíðu KFÍ kemur fram að um forkastanleg vinnubrögð Ármenninga sé að ræða. Þjálfari Ármanns segir að ekki hafi verið fært vestur.

„Okkur var tjáð að það væri ófært og það hefði fallið snjóflóð á leiðinni. Við höfðum fylgst vel með þessu allan morguninn hvernig þetta yrði og hvort það væri fært," sagði Tómas Hermannsson, þjálfari Ármanns, í samtali við íþróttadeild Vísis.

Í hádeginu í gær birtist frétt á KFI.is þess efnis að Ármann myndi ekki mæta til leiks og engin skýring sé á fjarveru Reykjavíkurliðsins. Ekkert sé að færðinni vestur.

„Engin skýring er með þessu uppátæki Ármenninga og eru þetta forkastanleg vinnubrögð þar sem ekkert er að færð á landi og í lofti," segir í fréttinni sem má lesa með því að smella hér. Þá eru stuðningsmenn Ísfirðinga sem höfðu hugsað sér að mæta á leikinn beðnir fyrirfram afsökunar skyldu þeir gera sér ferð á leikinn sem hafði verið auglýstur mikið á Ísafirði.

Tómas segist hafa verið í sambandi við heimamenn sem hafi varað þá við keyra vestur.

„Við höfðum samband við björgunarsveitina á Ísafirði sem sagði okkur að það væri mjög hált og hæpið en ef við ætluðum að keyra þangað yrðum við að hafa varann á," bætti Tómas við.

Tómas var undrandi á því að í fréttinni hjá KFÍ kæmi fram að engar skýringar hefðu verið gefnar á fjarveru Ármenninga.

„Ég hafði samband við þá klukkan níu um morguninn," sem neitaði þó að gefa upp hvaða fulltrúa KFÍ hann ræddi við. Sagði hann ekki vilja búa til nein leiðindi."

„Þeir mega skrifa það sem þeir vilja en við höfum okkar ástæður eftir að hafa ráðfært okkur við menn sem vissu hvernig færðin væri," sagði Tómas.

Ármann rekur lestina í 1. deild karla með fjögur stig. Tómas segir þó enga uppgjöf í hans herbúðum.

„Við erum ekki hættir. Við erum ennþá í deildinni. Ég á marga góða vini á Ísafirði og mér finnst þetta svolítið skrýtið," sagði Tómas sem spilaði á sínum tíma á Ísafirði.

Tómas sagðist hafa farið eftir settum reglum og tilkynnt KKÍ að Ármenningar sæju sér ekki fært að mæta til leiks. Hann sagði sig og sína menn reikna með því að leikurinn yrði spilaður síðar.

„Mótanefnd getur auðvitað tekið aðrar ákvarðanir," sagði Tómas að lokum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×