Viðskipti innlent

Gáfnaveitan Bruegel hrósar Íslendingum

Hin virta gáfnaveita Bruegel í Brussel segir að Íslendingar hafi haldið betur á sínum efnahagsmálum en Írar og Lettar eftir hrunið 2008.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem Bruegel hefur gefið út og fjallar um stöðu þessara landa í dag. Öll löndin þrjú áttu sama ferilinn að hruni sínu, það er stjórnvöld í þeim leyfðu ódýru erlendu lánsfé að skapa fasteignabólu, spákaupmennsku og ójafnvægi í fjárfestingum.

Þegar kreppan skall svo á hrundi fasteignamarkaðurinn og bankar fóru í þrot. Löndin þurftu þá að leita á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Lettland upplifði mesta samdráttinn af öllum þjóðum en Írland var í fimmta sæti hvað það varðar og Ísland í því sjöunda.

Í skýrslunni segir að Ísland sé nú best statt af þessum löndum en þar var bankakerfið látið hrynja til grunna og kröfuhöfum þess sagt að éta það sem úti frýs. Eftir á að hyggja var slíkt kannski hið rétta í stöðunni að mati Bruegel.

Hagvöxtur er hafin í löndunum þremur og sé hann mestur í Lettlandi en án þess að þar hafi dregið úr atvinnuleysi. Ísland hafi aftur á móti komist úr kreppunni með minnsta atvinnuleysið, að því er segir í skýrslunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×