Erlent

Ætluðu að vísa milljónamæringi úr landi í Danmörku

Til stóð að vísa háöldruðum bandarískum milljónamæringi úr landi í Danmörku um helgina þrátt fyrir að hann væri giftur dönskum ríkisborgara.

Fjallað er um málið í Jyllandsposten. Maðurinn sem hér um ræðir heitir Martin Lowenheim og er orðinn 78 ára gamall. Hann er fyrrum leikstjóri að hluta af MASH sjónvarpsþáttunum vinsælu.

Martin er búsettur í Oksböl á Jótlandi og er þar giftur Carol Jörgensen. Hann er með traustar tekjur frá lífeyrissjóði og á um 100 milljónir króna inn á bankareikningi. Carol er upphaflega frá Bandaríkjunum en hefur búið í Danmörku síðan 1967 og varð danskur ríkisborgari árið 1988.

Útlendingastofnun Danmerkur mat það svo að þau hjónin hefðu meiri tengsli við Bandaríkin en Danmörku. Því ætti að vísa Martin úr landi.

Innanríkisráðherra Danmerkur greip inn í málið og stöðvaði þessi áformin enda er Martin orðinn heilsuveill og bundinn við hjólastól.

Carol er æf af reiði yfir málinu. Hún segist ekki vilja flytja til Bandaríkjanna þar sem hún líti á sig sem Dana í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×