Erlent

Veiddu heimsins stærsta skötusel

Tveir norskir trillukarlar duttu í lukkupottinn síðdegis í gær þega þeir veiddu stærsta skötusel sem vitað er til að veiðst hafi í heiminum.

Skötuselur þessi var rétt tæplega 100 kíló að þyngd, nær tveggja metra langur og um metri á breidd yfir höfuðið.

Í umfjöllun Verdens Gang um málið segir að skötuselurinn hafi bitið á hjá trillukörlunum á grunnslóð við Hörðaland.

Skötuselurinn var það stór að þeir þurftu að draga hann á eftir trillunni í land.

Fiskmarkaðsverð á skötusel hérlendis er tæplega 540 krónur á kílóið. Þetta flykki hefði því selst á um 54.000 krónur á markaði hér heima.

Fyrra stærðarmet skötusels var fiskur sem var 79 kíló að þyngd en af því voru 20 kíló hrognafylla. Hrognafylla var hinsvegar ekki til staðar í þessum skötusel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×