Skoðun

Ávísun á góðar fréttir

Kristján B. Jónasson skrifar
Á undanförnum misserum hafa borist dapurlegar fréttir af lestrarkunnáttu íslenskra grunnskólabarna. Vitað er að eina ráðið til að efla lestrarfærni er að börnin lesi meira, en það hefur reynst snúið verk að hvetja þau til þess með samstilltu starfi.

Fyrir nokkrum árum var unnin athyglisverð skýrsla um lestrarhvatningu fyrir íslensk börn. Skýrsluhöfundur, Guðlaug Richter, ræddi við fjölda fólks sem unnið hefur að þessum málum og komst að því að vart verður tölu komið á staðbundin átaksverkefni sem ætlað er að auka lestur grunnskólanemenda. Áhrifin geta að sönnu verið mikil á meðan átakinu stendur en vandinn er að engin heildstæð áætlun eða stefnumótun er til um hvernig eigi að halda starfinu við. Ræðararnir eru margir en áratökin ekki samstillt.

Kjölfesta lestrarhvatningar er til í íslenskum grunnskólum og á henni gæti starfið byggst. Þar væri róið stöðugt og án afláts og í takt. Þetta eru skólabókasöfnin sem okkur ber að efla með öllum ráðum. Það fylgdi líka sögunni að á góðæristímanum hefði – svo mótsagnakennt sem það nú er – hallað undan fæti hjá þeim og brekkan orðið bröttust þegar sveitarfélög voru leyst undan lagalegri skyldu til að reka bókasöfn í grunnskólum árið 2008. Nú þegar því máli hefur verið kippt í liðinn og lagaskyldan orðin söm og sú skylda sveitarfélaga að reka almenningsbókasöfn, blasir eigi að síður við að hafi góðærið verið slæmt tók ekki betra við í kreppu.

Brynhildur Þórarinsdóttir, rithöfundur og lektor við Háskólann á Akureyri, kynnti á tólftu Þjóðarspegilsráðstefnunni í október 2011 nýja rannsókn um stöðu skólabókasafna. Hún skoðaði sérstaklega söfnin sem fengu styrk úr Skólasafnasjóði, sem Félag íslenskra bókaútgefenda kom á koppinn árið 2010 í því skyni að vekja athygli á stöðu skólabókasafna og veita styrki til bókakaupa.

Í ljós kom að á árunum 2009 og 2010 voru fjárveitingar til safnanna skornar rösklega niður. Dæmi voru um að ekki hefði verið eytt svo mikið sem einni krónu til bókakaupa á sumum söfnum á þessum tíma. Ef skólabókasafn hefur eitt árið 800.000 krónur til bókakaupa en næstu tvö árin aðeins 50.000 krónur eða jafnvel ekkert, þá dregst safnið aftur úr. Það nær ekki að verða sér úti um nýjar, áhugaverðar bækur. Fyrir vikið er ekki sjálfsagt mál að nýjustu útgáfurnar rati til allra barna í sumum árgöngum.

Fjármuna til Skólasafnasjóðs er aflað með 100 króna framlagi af andvirði hverrar „Ávísunar á lestur" sem þessa dagana berast inn á heimili landsmanna. Hver ávísun gildir sem 1.000 króna afsláttur ef keyptar eru bækur fyrir 3.500 krónur eða hærri upphæð. Hægt er að hafa áhrif á hvaða skólar fá fé úr sjóðnum með því að skrifa nafn skólans á ávísunina.

Með því að nota ávísunina geta foreldrar í senn bætt bókakost heimilisins og stutt við bakið á bókasafni síns skóla. Þannig hvetja þeir til lestrar jafnt heima sem í skólanum og gera sitt til að færa okkur einn daginn góðar fréttir af lestrarkunnáttu grunnskólanemenda.




Skoðun

Sjá meira


×