Viðskipti innlent

Baugstoppar fyrir dómi - fundu mikilvæg gögn í bílskúr á Akureyri

Gunnar Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Baugs.
Gunnar Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Baugs. Mynd/ Anton.
Aðalmeðferðferð fór fram í máli þrotabús BGE eignarhaldsfélags í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag gegn Gunnari Sigurðssyni fyrrverandi forstjóra Baugs Group vegna lána sem hann og aðrir starfsmenn fengu til þess að kaupa hlutabréf í Baug í gegnum BGE.

BGE eignarhaldsfélag var sérstaklega stofnað í nóvember 2003 til að halda utan um kaupréttarsamningakerfi starfsmanna Baugs en það var hannað af KPMG. Kerfið virkaði þannig að Kaupþing lánaði Baugi gegn veði í hlutabréfum félagsins og Baugur lánaði féð síðan áfram til starfsmanna Baugs. Starfsmenn Baugs fengu lánað fyrir hlutabréfum sem þeir máttu svo selja á ákveðnum tímum. Sjálfir vildu þeir meina að þeir væru ekki persónulega ábyrgir fyrir lánunum. Þessu er skiptastjóri þrotabúsins ósammála.

Árið 2010 ákvað skiptastjóri BGE að láta reyna á innheimtu 15 stærstu skuldarana en alls gerðu 40 starfsmenn Baugs slíka samninga. Við þá var samið sérstaklega.

Meðal stærstu skuldara voru þeir Jón Ásgeir Jóhannesson, þá aðaleigandi Baugs, Gunnar Sigurðsson, forstjóri fyrirtækisins, Skarphéðinn Berg Steinarsson, sem leysti raunar út sín bréf árið 2008 og græddi 100 milljónir á, auk Stefáns H. Hilmarssonar. Þeir fjórir skulduðu samanlagt rúmlega milljarð króna en heildarlánin voru 3,4 milljarðar.

Í aðalmeðferðinni í morgun voru nokkrir lykilstarfsmenn Kaupþings og Baugs kallaðir til. Meðal annars Guðrún Tinna Ólafsdóttir, þáverandi verkefnastjóri Baugs, en hún kynnti kerfið fyrir starfsmönnum. Þá var Stefán H. Hilmarsson einnig kallaður til en hann var fjármálastjóri félagsins.

Viðskiptafræðingurinn Haraldur Úlfarsson var einnig kallaður til vitnis, en hann starfaði fyrir skilanefnd sem leysti þrotabú BGE til sín. Hann fór í mikla gagnaöflun til þess að finna bókhaldsgögn um félagið til þess að finna út stöðu þess.

„En þau voru flest að finna í bílskúr á Akureyri," útskýrði hann en Ástráður Haraldsson, lögfræðingur þrotabúsins áréttaði þá að gögnin hefðu fundist í bílskúr Rúnars Sigurpálssonar, sem var forstöðumaður á fjármálasviði Baugs á sínum tíma en hann gaf einnig símaskýrslu fyrir réttinum. Svo virðist sem það hafi kostað töluverða fyrirhöfn að nálgast einhver gögn um kaupréttarkerfið sem BGE var í raun og veru.

Haraldur sagði ennfremur að gögn hafi verið af verulega skornum skammti, þannig hefðu þeir, auk bílskúrsgagnanna, fengið fullt af Ecxelskjölum í gegnum minnislykil. Annars væri ekki á miklu að byggja.

Niðurstaða útreikninga Haralds var sú að Gunnar skuldar rúmlega fjörutíu milljónir króna.

Eins og fyrr sagði þá seldi Skarphéðinn Berg bréfin sín í gegnum BGE árið 2008. Á þeim viðskiptum græddi hann 104 milljónir króna. Þrotabú Baugs vildi rifta þessum greiðslum. Fram kom í því máli að Baugur hafði greitt féð inn á reikning BGE Eignarhaldsfélags, sem svo hafi greitt féð til Skarphéðins. Í bókhaldi félagsins hafi þetta verið skráð sem lán til BGE Eignarhaldsfélags.

Niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur árið 2012 var sú að greiðslurnar hafi ekki komið frá Baugi heldur BGE Eignarhaldsfélagi og því gat Baugur ekki krafið Skarphéðinn um greiðslu þeirra. Svo kom einnig í ljós að þrotabúið lýsti kröfum í þrotabú BGE upp á sömu upphæðir. Því væri verið að krefja tvo aðila um sömu greiðslu.

Þetta stangast töluvert á við skilning Gunnars Sigurðssonar og annarra starfsmanna Baugs, sem telja að Baugur og BGE hafi verið órjúfanlegur hluti Baugs.

Aðalmeðferð lauk í dag og má vænta niðurstöðu innan nokkurra vikna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×