Sport

Ásdís: Nú hefst undirbúningurinn fyrir Ríó

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í London skrifar
Ásdís Hjálmsdóttir sést hér eftir þriðja og síðasta kastið sitt á Ólympíuleikvanginum í London í gær en þá varð ljóst að hún yrði ekki meðal þeirra átta sem fengu þrjú köst til viðbótar.
Ásdís Hjálmsdóttir sést hér eftir þriðja og síðasta kastið sitt á Ólympíuleikvanginum í London í gær en þá varð ljóst að hún yrði ekki meðal þeirra átta sem fengu þrjú köst til viðbótar. Mynd/Valli
Ásdís Hjálmsdóttir hafnaði í ellefta sæti í spjótkastskeppni kvenna á Ólympíuleikunum í London í gærkvöldi. Hún kastaði 59,08 m strax í fyrstu tilraun og reyndist það lengsta kast hennar.

„Þetta er alls ekki lélegur árangur þó svo að ég hafi verið að kasta 62,77m fyrir tveimur dögum," sagði Ásdís í gærkvöldi en hún setti glæsilegt Íslandsmet í undankeppninni á þriðjudag. Hún neitaði því þó ekki að hún ætlaði sér meira.

„Að sjálfsögðu er þetta pínulítið svekkjandi. Ég er keppnismanneskja og það er það sem kom mér hingað. Ég er svekkt í kvöld en á morgun verð ég ánægð, enda ekki annað hægt en að komast í úrslit og enda í ellefta sæti."

Heimsmeistarinn í 10. sætiÁtta efstu eftir fyrstu þrjú köstin fengu að halda áfram og taka önnur þrjú köst. Ásdís var ekki í þeim hópi en ekki heldur heimsmeistarinn Maria Abakumova.

„Það segir mikið um þessa grein og hvernig hún er. Þess fyrir utan náði stelpa sem hefur ekki verið að kasta vel í sumar í brons," sagði hún og átti þar við Lindu Stahl frá Þýskalandi.

Heimsmethafinn Barbora Spotakova frá Tékklandi varði Ólympíutitil sinn í greininni með kasti upp á 69,55m og önnur varð, Christina Obergföll, með 65,16m en hún er einnig frá Þýskalandi.

Ásdís kastaði 57,35m í annarri tilraun en gerði viljandi ógilt í þriðju. Hún sá um leið að spjótið færi ekki langt enda reis það mjög hátt og varð fyrir vikið mun styttra en ella. „Það var rosalega gott kast – betra en á þriðjudaginn. En ég reif aðeins í það – það kom smá hreyfing í úlnliðinn sem varð til þess að spjótið reis of mikið upp," sagði hún.

„Upphitunin hafði gengið mjög vel og mér leið vel. Ég var of rög í fyrsta kastinu og svo geymdi ég hægri höndina ekki nógu vel í öðru kastinu, svo ég vísi í tæknimálið. Ég ætlaði svo að negla þriðja kastið en svo fór það svona. Það þarf smá heppni og þýðir ekki að dvelja lengur við það."

Ætla að toppa í RíóÁsdís er 26 ára gömul og er hvergi nærri hætt. „Undirbúningurinn fyrir [Ólympíuleikana] í Ríó hefst á morgun. Ég er ekki einu sinni að hugleiða að hætta. Spjótkastarar eru oft að toppa í kringum þrítugt og ég ætla mér að toppa í Ríó."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×