Erlent

Ólæknandi afbrigði af lekanda breiðist hratt um heiminn

Nýtt illvígt afbrigði af kynsjúkdóminum lekanda breiðist nú hratt um heiminn. Um er að ræða svokallaða ofurbakteríu þar sem engin þekkt sýklalyf vinna á henni.

Fjallað er um málið í blaðinu The Guardian og þar segir að þessi lekandi sé tekinn að breiðast út meðal Breta. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin segir að tilfelli hafi einnig komið upp í Noregi, Svíþjóð, Ástralíu og Frakklandi. Þar hefur reynst ómögulegt að lækna lekandann með cephalosporin sýklalyfjum sem hingað til hafa verið síðasta vörn lækna gegn þessum sjúkdómi.

Lekandi sem slíkur er að verða eitt af helstu heilbrigðisvandamálum heimsins og talið er að um 106 milljónir manna sýkist af honum á hverju ári. Þetta kom fram á ráðstefnu í Genf í vikunni. Þetta nýja afbrigði af sjúkdóminum gæti gert ill verra.

Lekandi getur valdið ófrjósemi í bæði körlum og konum og alvarlegum augnsköðum í ungabörnum.

Lekandi er sá kynsjúkdómur sem flestir sýkjast af en hingað til hefur helst borið á honum í suðurhluta Asíu og löndunum sem liggja suður af Sahara eyðimörkinni í Afríku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×