Skoðun

Þreytandi klisjur og blekkjandi

Snorri Páll Jónsson Úlfhildarson skrifar
Þegar þagga á niður í andófi, gera lítið úr því og þeim sem að því standa, er oft eins og tiltekin runa, vélræn upptalning á örfáum nöfnum og atburðum, komi upp í huga fólks. Rosa Parks, Martin Luther King, Mahatma Gandhi, Nelson Mandela — nafnalistanum er beinlínis kastað fram og honum ætlað að gera öllum ljóst að samanborið við þessar manneskjur sé andófsfólkið sem gagnrýnt er ómerkilegt, lítilvæglegt og ómarktakandi. Allt sem fjórmenningarnir ofangreindu eru ekki.

Og það sem mestu skiptir: Nöfnunum er stillt upp sem kyndilberum passífsmans — lifandi sönnunum þess að friðsamt andóf ekki bara virki heldur sé hinu ófriðsamlega og öfgafulla bæði göfugra og áhrifaríkara.

Akkúrat þessari runu skellti laganeminn Hrafn Jónsson fram í grein sem birtist á síðum þessa sama blaðs á síðasta degi marsmánuðar. Umræðuefnið var femínismi og bauð laganeminn upp á hin ýmsu orð sem ákveðnir femínistar skyldu sko taka til sín: Ofstæki. Afskræming hugtaka. Blóðugur vígvöllur. Hatur. Öfgar. Allt ljót orð. En munum, sagði hann, að fjórmenningarnir létu ekki leiðast út í slíkt svað og „óumdeilt“ að árangur þeirra „á sér vart hliðstæðu“.

Ég ætla ekki að blanda mér inn í þessa tilteknu umræðu um femínisma en leyfi mér hins vegar að setja allnokkur spurningarmerki við slíkan söguskilning og svara svo sjálfur.

Óhlýðni Rosu Parks birtist hvorki út úr tómi né inn í eitt slíkt. Hún er einungis brotabrot úr því gríðarstóra fjalli sem frelsisbarátta blökkumanna var og er og inniheldur allt frá bréfaskrifum og ræðuhöldum til herskárra aðgerða og vopnaburðar. Það sama á við um Martin Luther King þótt samkvæmt vel ritrýndri söguskoðun sé honum gjarnan stillt upp sem einhvers konar einvaldi frelsisbaráttunnar, andspænis herskárri þáttum hennar – sem oft eru smættaðir niður í einn mann, Malcolm X – til marks um almætti hins friðsama.

Svipaða sögu má auðvitað segja um Gandhi og frelsisbaráttuna á Indlandi. Þar er ljóst að flókið samspil borgaralegrar óhlýðni, vopnaðs andófs, og loks ýmissa utanaðkomandi áhrifa á getu Breta til að viðhalda nýlenduvöldum sínum, leiddi á endanum til þess sem Gandhi og hans fylgismönnum er yfirleitt einum eignað. Bandaríski rithöfundurinn Peter Gelderloos hefur í því sambandi nefnt nöfn tveggja manna sem engu síður en Mahatma ættu að eiga en eiga ekki öruggan stað í sögubókunum – Chandrasekhar Azad og Bhagat Singh sem báðir leiddu vopnað andóf gegn yfirráðum Breta.

Loks er það Nelson Mandela – en hann tók jú þátt, og gott betur, stofnaði bæði og leiddi Umkhonto we Sizwe, vopnaðan arm Afríska þjóðarráðsins, sem beitti skemmdarverkum og ofbeldi í baráttunni gegn aðskilnaðarstefnu Suður-Afríku.

Það væri auðvitað ekki rétt að halda því fram að andóf sem stígur handan marka hins friðsama sé eitt og sér alltaf áhrifaríkara en það sem heldur sig innan friðarmúranna. En það er ámóta vitlaust og á sama tíma blekkjandi að kasta fram nöfnum og atburðum á borð við frelsibaráttu blökkumanna og Indverja, andspyrnu við aðskilnaðarstefnur –jafnvel atburðum eins og frönsku byltingunni, sem mörgum þykir jú fínt að punta sig með á tyllidögum – eins og um eintómar friðarsamkundur appelsínugulra borðabera hafi verið að ræða.

Vitræn umræða tengd andófi krefst þess að vera laus við ofangreindar og aðrar álíka klisjur, slík ósannindi, sem og dogmatíska upphafningu á passífisma – miklu frekar en einhverjar meintar öfgar sem fæstir geta svo, þegar upp er staðið, útskýrt í hverju felast.




Skoðun

Sjá meira


×