Skoðun

Ísland úr stríði

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir skrifar
Ísland gekk í Atlantshafsbandalagið þegar kalda stríðið var í algleymingi og heimsmyndin dregin skörpum skilum milli tveggja andstæðra fylkinga. Stórveldin, Bandaríkin og Sovétríkin, standa nú ekki lengur með vopnabúr sín hvort á móti öðru heldur hafa hagsmuna- og hernaðarátök á heimsvísu tekið á sig gjörbreytta mynd.



Atlantshafsbandalagið hefur einnig tekið miklum breytingum í tímans rás, en þó ekki með þeim hætti sem eðlilegt hefði verið í ljósi breyttrar skipanar heimsmála. Í stað þess að slíðra sverðin í þágu friðar við lok kalda stríðsins hefur Nató farið í útrás með gríðarlegri hernaðaruppbyggingu um víða veröld.



Þetta er byrjunin á þingsályktunartillögu sem öllum þingmönnum hefur verið boðið að gerast meðflutningsmenn að. Ályktunin gengur út á að Ísland segi sig úr hernaðarbandalaginu Nató í samræmi við þá stefnu Íslands að vera herlaust land.



Heimurinn hefur breyst, en höfum við breyst? Þjóð sem ætlar að vera í hernaðarbandalagi ætti að setja upp her; þjóð sem er og vill vera herlaus ætti að halda sig utan herskárra hernaðarbandalaga. Hernaðurinn í Írak og Afganistan með aðkomu Nató ætti með réttu að vera fullt tilefni til þess að fólk allra flokka teldi rétt að Ísland segði sig úr bandalaginu. Í stað þess er Ísland nú aðili að enn einni herförinni í fjarlægu landi. Ýmislegt í stríðsrekstrinum í Líbíu minnir óhuggulega á upphaf innrásarinnar í Írak.

Eins og venja er orðin þegar innrás er gerð í framandi olíuríki voru loftárásir Nató á Líbíu réttlættar með því að vernda ætti líbískan almenning. En það er einmitt almenningur sem verður verst úti og hafa þúsundir þegar látið lífið.



Það er löngu tímabært að Ísland sýni í verki að það er sjálfu sér samkvæmt, herlaust og andvígt hernaðarofbeldi. Í stað þess að vera föst í viðjum kalda stríðsins er lag að hugsa upp á nýtt og tryggja að Ísland sé ekki og verði ekki enn og aftur aðili að hörmulegum þjáningum óbreyttra borgara í fjarlægum löndum.




Skoðun

Sjá meira


×