Skoðun

Játning

Bergur Ebbi Benediktsson skrifar
Eins og góður og gegn plebbi er ég alltaf að leita að einhverju til að vera stoltur af. Það skiptir mig minna máli hvort afrekið sem ég er stoltur af megi á nokkurn hátt rekja til mín eða minnar vinnu. Besta leiðin til að útskýra þetta er með því að segja að ég er hinn dæmigerði maður sem fyllist stolti þegar íslenska handboltalandsliðinu gengur vel. Alveg frá því ég var lítill hef ég verið upptekinn af því hvað gerir Íslendinga sérstaka. Er það hesturinn, handboltinn, vatnið, viðskiptavit eða eitthvað annað? Oft hef ég staðið sjálfan mig að því að útskýra fyrir útlendingum hvað Ísland sé frábært á mörgum sviðum - að Ísland sé jafnvel ríki sem aðrar þjóðir geti tekið sér til fyrirmyndar.

En oftast hef ég þurft að éta upp í mig montið. Yfirlýsingar um að á Íslandi sé lítil spilling eiga ekki við rök að styðjast. Mont um íslenska hestinn er innantómt hjal. Þá er viðskiptavit Íslendinga álíka mikið og hjá naggrísum.

Ég held að það eina sem við getum státað okkur af er að á Íslandi hafa konur hlutfallslega meiri réttindi en í flestum öðrum löndum. Launamunur kynja er minni, atvinnuþátttaka meiri, kynbundið ofbeldi er ekki lengur feimnismál og konur hafa haslað sér völl í viðskiptum og stjórnmálum. Ég veit vel að björninn er ekki unninn, en fordæmi íslenskra kvenna er aðdáunarvert. Ég á líklega engan hlut í því sjálfur, ekki frekar en íslenska handboltalandsliðinu, en ég er stoltur af jafnréttisbaráttu íslenskra kvenna. Ég skal stilla mig um mont - en mikið er ég stoltur.



+++++++++++++++++

Öðlingurinn 2011 er vitundarvakning. Átakið stendur yfir í mánuð, frá bóndadeginum (21. janúar) til konudagsins (20. febrúar).

Markmið þess er að stuðla að opinni umræðu um jafnrétti kynjanna á Íslandi. Nánar á heimasíðu átaksins, odlingurinn.is.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×