Viðskipti innlent

Spáir því að verðbólgan fari í 4,7% í júlí

Greiningin Arion banka spáir 0,2% verðhjöðnun í júlí, þ.e. 0,2% lækkun á vísitölu neysluverðs (VNV). Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan mælast 4,7% samanborið við 4,2% í júní. Lækkun þessi á verðlagi má fyrst og fremst rekja til tímabundinna áhrifa frá sumarútsölum sem koma nú fram af fullum þunga í þessum mánuði.

Fjallað er um spána í Markaðspunktum greiningarinnar. Þar segir að helstu þættir séu sumarútsölur, eldsneytisverð, kjarasamningar og húsnæði.

Síðustu árin hafa sumarútsölur lækkað verðlag um 0,5-0,7% í júlí. Sterk útsöluáhrif komu fram á sama tíma í fyrra en á þeim tíma var gengi krónunnar að styrkjast. Öfugt er upp á teninginn nú þar sem krónan hefur veikst að undanförnu og gerum við því ráð fyrir að útsölur verði í lakari kantinum þetta árið. Heildaráhrif -0,5%.

Eldsneytisverð hefur hækkað á bæði bensíni og díselolíu um 2,5-3,5 krónur. Heildaráhrif +0,065%.

Frá ársbyrjun hefur húsnæðisliðurinn haft rúmlega 0,7% áhrif til hækkunar á VNV – stór hluti þess má rekja til hækkunar á markaðsverði húsnæðis auk þess sem viðhald og viðgerðir hafa einnig haft sín áhrif. Greiningardeild gerir ekki ráð fyrir breytingum á þessari þróun og áfram muni húsnæðisliður hafa áhrif til hækkunar. Heildaráhrif +0,10%.

Greina mátti veik merki þess efnis í síðustu verðmælingu Hagstofunnar að birgjar, kaupmenn og önnur fyrirtæki væru farin að ýta kostnaðarhækkunum út í verðlagið vegna kjarasamninga en fyrstu hækkanir áttu sér stað 1.júní sl. Greiningardeild gerir ráð fyrir sterkari áhrifum á næstu mánuðum. Nú þegar hefur verðlagsnefnd búvara stigið fram og tilkynnt gjaldskrárhækkun á mjólk og öðrum mjólkurafurðum 1. júlí nk. Greiningardeild gerir ráð fyrir að aðrir birgja og kaupmenn fylgi í kjölfarið. Heildaráhrif í júlí 0,05-0,10%.

Síðan segir í Markaðspunktunum: „Ljóst er að barátta Seðlabankans til að viðhalda verðbólgu við markmið sitt er töpuð í bili. Ársverðbólgan hefur frá því í apríl mælst yfir 2,5% markmiði bankans og gangi bráðabirgðaspá okkar eftir  er útlit fyrir að ársverðbólgan verði í kringum 5,5% í september.

Hins vegar er mikilvægt að átta sig á því að sú verðbólga sem gengið hefur yfir má einkum rekja til hrávöruverðshækkana úti í heimi sem ómögulegt er fyrir Seðlabankann hér heima að sporna gegn. Til að bæta olíu á eldinn hafa aðrir innlendir þættir ýtt undir versnandi verðbólguhorfur eins og hinir títtnefndu kjarasamningar - sem Seðlabankinn varaði margoft við að samræmdist ekki verðbólgumarkmiði bankans.

Þessu til viðbótar hefur fasteignamarkaðinn sýnt skýr merki um viðsnúning – en aukin umsvifin á þeim markaði eru ekki keyrð áfram á auknum útlánum í kerfinu heldur með eigin fé fjárfesta og sparifé einstaklinga (sem m.a. má rekja til gjaldeyrishafta). Þá hefur krónan einnig verið í veikingarfasa á sama tíma. Barátta Seðlabankans við verðbólguna á næstu misserum er því heldur erfið og má deila um hvort hann hafi einhver tæki eða tól til að berjast við þá verðbólgu sem framundan er.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×