Viðskipti innlent

MP banki áfram með mestu veltuna í skuldabréfum

MP banki var með mestu veltuna á skuldabréfamarkaðinum á síðasta ári. Er þetta annað árið í röð sem bankinn er í efsta sæti hvað þetta varðar.

Fjallað er um málið í Markaðsvísi MP banka. Þar segir að meginhluti kauphallarviðskipta á Íslandi hefur verið með skuldabréf undanfarin ár, öfugt við það sem var fyrir hrun.

Heildarvelta á skuldabréfamarkaði í kauphöllinni nam 5678 milljörðum kr. en til samanburðar var 50 milljarða kr. velta á hlutabréfamarkaði í fyrra.

Þessi velta deilist á 18 kauphallaraðila og var MP banki með mesta veltuhlutdeild á skuldabréfamarkaði annað árið í röð eða rúm 28%.

Ríkið stefnir að útgáfu ríkisbréfa fyrir 120 milljarða kr. á árinu sem er 67 milljörðum kr. umfram það sem er á gjalddaga á árinu. Samkvæmt útgáfuáætlun verður áfram lögð áhersla á að lengja meðallíftíma útistandandi skuldabréfa. Tveir nýir flokkar eru fyrirhugaðir á árinu, 10 ára flokkur með gjalddaga 2022 og 20 ára flokkur.

Í fyrra var gefið út verðtryggt ríkisbréf með gjalddaga 2021 en þá hafði ríkið ekki gefið út verðtryggt skuldabréf síðan 1995. Bréfinu var vel tekið og nú eru útistandandi um 50 milljarðar kr. í þessum flokki. Stefnt er að því að halda áfram útgáfu í þessum flokki á árinu en ekki liggur fyrir hve mikið það verður en þó er ljóst að ekki stendur til að stækka flokkinn á fyrsta ársfjórðungi.

Einnig verða breytingar á útgáfum ríkisvíxla sem verða nú til 6 mánaða í stað 4 undanfarið en einnig verður möguleiki á að stækka hvern víxlaflokk þegar 3 mánuðir eru til gjalddaga. Útistandandi flokkum fjölgar því úr fjórum í sex auk þess sem heildarupphæð útistandandi víxla mun lækka um 12 milljarða kr. á árinu samkvæmt áætluninni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×