Viðskipti innlent

Sveitarfélög verðlögðu lóðir of hátt

Baldur Þór Baldvinsson
Baldur Þór Baldvinsson

Sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu tóku þátt í góðærinu af fullum krafti í aðdraganda efnahagshrunsins. Lóðaverðið miðaðist við fjölda íbúða sem átti að vera í fasteignum á lóðinni og eru dæmi um að fjölbýlishúsalóð hafi verið seld með þessum hætti í nýju hverfi á um 400 milljónir króna.

„Sveitarfélög verðlögðu lóðir með þessum hætti án útboða. Það skilaði sér í of háu íbúðaverði," segir Friðrik Ólafsson, forstöðumaður Meistaradeildar Samtaka iðnaðarins. Hann vinnur að því að taka saman hvað hafi legið á bak við lóðaverðmat sveitarfélaga.

Friðrik þekkir dæmi þess að sveitarfélag hafi miðað verð lóða við allt frá 1,8 milljónum króna til fjögurra milljóna á hverja íbúð sem fyrirhugað var að reisa á lóð í nýju hverfi árið 2007. Heildarlóðaverð gat, miðað við þetta, hæglega farið yfir nokkur hundruð milljónir króna.





Lóðir á Rúmlega hálfan milljarð króna Þrjár lóðir með engu á í landi Úlfarsfells voru metnar á 530 milljónir króna í bókum byggingafélagsins Innova í lok árs 2007. Engar fasteignir eru á lóðunum. Til stóð að reisa þar fjölbýlishús. Fréttablaðið/Vilhelm

Áhrif þessa koma skýrt fram í efnahagsreikningi byggingaverktaka. Heildarvirði verka Innova, eins af umsvifamestu byggingafélögum landsins árið 2007 og Fréttablaðið fjallaði um á mánudag, nam tæpum 11,6 milljörðum króna. Enn í dag eru engin mannvirki á lóðum sem félagið mat á 5,8 milljarða króna. Þrjár fjölbýlishúsalóðir fyrirtækisins voru metnar á rúmar 530 milljónir króna og miðaði verðið við það sem stjórnendur fyrirtækisins gerðu sér vonir um að fá fyrir fasteignina fullbyggða með áföllnum kostnaði. Fasteignamat lóðanna í dag er um 100 milljónir króna.

Baldur Þór Baldvinsson, formaður Meistarafélags húsasmiða, segir vel í lagt í verðmati stjórnenda Innova en viðurkennir að lóðaverð og fjármagnskostnaður hafi valdið því að íbúðaverð hér hafi þegar verst var á árunum fyrir efnahagshrunið þurft að vera mjög hátt til að skila verktökum hagnaði.

VBS fjárfestingarbanki, viðskiptabanki Innova, tók virkan þátt í fjárfestingum með félaginu og lánaði í samræmi við virði eigna í ársreikningi. Bankinn afskrifaði sjö milljarða króna vegna tapaðra útlána árið 2009. Útlán bankans voru að mestu til fasteignaverkefna. VBS fékk Innova í fangið haustið 2008 og fór bankinn í þrot um hálfu ári síðar.

jonab@frettabladid.is










Fleiri fréttir

Sjá meira


×