Viðskipti innlent

Hafnarfjörður hefur stefnt ríkinu vegna skattamála

Skattaskuld Reykjanesbæjar er tilkomin vegna sölu á hlut í Hitaveitu Suðurnesja við skiptingu fyrirtækisins í HS orku og HS veitur. Ríkið keypti auðlindir af Reykjanesbæ í gær og kemur hluti kaupverðs upp í skuldina.fréttablaðið/valli
Skattaskuld Reykjanesbæjar er tilkomin vegna sölu á hlut í Hitaveitu Suðurnesja við skiptingu fyrirtækisins í HS orku og HS veitur. Ríkið keypti auðlindir af Reykjanesbæ í gær og kemur hluti kaupverðs upp í skuldina.fréttablaðið/valli
Fjármagnstekjuskattur var innheimtur vegna sölu sveitarfélaga á HS orku en ekki í öðrum tilfellum. Hafnarfjarðarbær hefur stefnt ríkinu fyrir dóm. Kaupverð af sölu auðlinda Reykjanesbæjar fer í skattaskuld.

Hafnarfjarðarbær hefur stefnt ríkinu fyrir dóm vegna skattainnheimtu. Bæjarfélagið er í viðræðum við ríkið um greiðslu 800 milljóna fjármagnstekjuskatts sem til er kominn vegna sölu á Hitaveitu Suðurnesja. Fyrirvari er gerður um niðurstöðu dómsmálsins.

Gerður Guðjónsdóttir, fjármálastjóri Hafnarfjarðarbæjar, segir að það fari eftir félagaformi hvort lagður sé á fjármagnstekjuskattur. Af því að Hitaveitan var hlutafélag þurfti að greiða skattinn. „Hefði þetta verið sameignafélag eða rekið af bænum, eins og fráveitan, hefðum við ekki borgað krónu.“

Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, tekur undir þessa gagnrýni. Reykjanesbær seldi í gær jarðirnar Kalmanstjörn og Junkaragerði og fór stærstur hluti kaupverðsins upp í skattaskuld.

Hún er til komin vegna sölu sveitarfélagsins á hlut sínum í Hitaveitu Suðurnesja. Árni veltir því upp hvort ekki sé verið að brjóta jafnræðisreglu með skattlagningunni. Önnur sveitarfélög sem hafi selt hluti í orkufyrirtækjum, svo sem Landsvirkjun eða Norðurorku, hafi ekki þurft að greiða þennan skatt.

„Þess er bara krafist hjá sveitarfélögum sem áttu í Hitaveitu Suðurnesja. Skýringin er að aftan við heiti hennar var „hf.“ og þá hefur ríkið heimild til að búa til fjármagnstekjuskatt, jafnvel þó þetta hafi aðeins verið sveitarfélög sem seldu.“

Árni segir athyglisvert að tvö stjórnsýslustig eigi í hlut í þessu máli og annað stjórnsýslustigið sé að greiða fjármagnstekjuskatt til hins. Salan á hitaveitunni var tilkomin vegna lagabreytingar sem gerði mönnum skylt að skilja á milli orkuframleiðslu og dreifingar.

Árni segir sölu jarðanna hentuga leið fyrir bæjarfélagið til að borga fjármagnstekjuskattinn. Reykjanesbær keypti jarðirnar af HS Orku fyrir tveimur og hálfu ári og segir Árni það hafa verið gert til þess að auðlindir á þeim færu ekki í einkaeigu. Ákveðið hafi verið að setja jarðirnar upp í skattaskuldina núna og kæmust auðlindirnar þá í þjóðareigu.

Hann bendir á að Hafnarfjörður sé í viðræðum við ríkisvaldið um greiðslu skuldarinnar á fimm árum. Reykjanesbær hefði væntanlega getað fengið sambærilegan samning, en valið að fara þessa leið.

Gengið var frá kaupum ríkisins á jörðunum í gær. Kaupverðið er 1.230 milljarðar króna og fara 900 milljónir upp í skuldina. Eftir standa þá 854 milljónir, en skattaskuldin var 1.753 milljónir króna, að því er fram kemur í ársreikningi sveitarfélagsins.kolbeinn@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×