Handbolti

Björgvin Páll: Voru frábærir dómarar og frábærar manneskjur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Landsliðsmarkvörðurinn Björgvin Páll Gústavsson var í hringiðunni í gær þegar fréttist af því að þýsku dómarabræðurnir Bernd og Reiner Methe höfðu látist í bílslysi á leið sinni til Balingen.

Björgvin Páll átti að spila leikinn ásamt félögum sínum í SC Magdeburg og þeir keyrðu framhjá slysstaðnum á leið sinni til Balingen. Björgvin kynntist tvíburunum þegar hann ferðaðist með þeim til sín heima eftir landsleik í Frakklandi þegar ekki var hægt að fljúga vegna eldgossins í Eyjafjallajökli.

„Þetta er mikið sjokk fyrir handboltaheiminn að þeir séu látnir því þetta eru frábærir dómarar og frábærar manneskjur," sagði Björgvin Páll Gústavsson, í samtali við Hans Steinar Bjarnason, íþróttafréttamann á Stöð 2, en hann tók viðtal við Björgvin Pál fyrir kvöldfréttirnar.

„Þeir sem þekktu þess menn höfðu bara gott um þá að segja. Þetta er því mikill missir fyrir handboltafjölskyldu heimsins því þetta voru einu af bestu dómarapörunum í heiminum," sagði Björgvin Páll.

„Slysið var rétt fyrir utan Balingen og við vorum að fara að spila við Balingen á útivelli. Það voru svona fimmtán mínútu til Balingen þegar við keyrðum framhjá slysinu en þá var það frekar nýskeð en búið að koma öllum mönnum úr bílunum. Við komum að þessu og þetta leit mjög illa út. Bílinn þeirra leit liggur við ekki út eins og bíll lengur enda bara hálfur og mjög illa farinn," lýsir Björgvin.

„Við förum bara áfram og í Höllina og spáum ekki meira í því. Svo fengum við bara fréttirnar þegar við vorum hálfnaðir í upphitun að þetta hafi verið þeir. Það var aldrei spurning í okkar huga að þetta hafi ekki endað vel eftir að við sáum hvernig bíllinn leit út. Það var bara ömurlegt að fá þessar fréttir og mikið sjokk," sagði Björgvin.

„Þetta er stór missir og ekki síst fyrir fjölskyldu þeirra beggja. Þetta eru menn sem eru búnir að vera mjög áberandi í handboltalífinu, voru frábærir dómarar sem vilja öllum vel. Þeir komu sem dæmi til mín fyrir fyrsta leikinn minn og óskuðu mér góðs gengis í deildinni. Það er lýsandi fyrir hvernig týpur þetta voru. Þeir vildu öllum vel og voru góðir við alla," sagði Björgvin.

„Ég kynntist þeim þegar landsliðið var að spila á móti Frökkum og eldgosið í Eyjafjallajökli var í gangi. Þá fórum við nokkrir landsliðsmenn með þeim í bíl á leiðinni til okkar heima. Þá kom í ljós hversu frábærir gæjar þetta voru. Þetta voru því hræðilegar fréttir og erfitt að sjá á eftir svona góðum mönnum," sagði Björgvin Páll.

„Þetta voru að mínu mati besta dómarapar í heimi og þetta var líka þekktustu dómarar í heimi því þeir hafa dæmt gríðarlega mikið af leikjum. Þeir höfðu mikla virðingu hjá öllum leikmönnum og þetta er ekki síst mikið áfall fyrir dómarastéttina enda þekkjast dómarar vel innbyrðis," sagði Björgvin Páll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×