Viðskipti innlent

Norðmenn og Íslendingar geta sameinast um Jan Mayen

Einn kunnasti olíuráðgjafi Noregs telur að breytingar á íslensku olíuskattkerfinu séu forsenda þess að starfsemi hefjist á Drekasvæðinu og segir að Norðmenn og Íslendingar geti sameinast um að gera Jan Mayen-svæðið aðlaðandi til olíuleitar.

Hans Henrik Ramm hefur setið á norska Stórþinginu, verið aðstoðarolíumálaráðherra, en starfar nú sem ráðgjafi og dálkahöfundur um olíuiðnað Noregs.

Í ítarlegri grein um nýlega ákvörðun norsku ríkisstjórnarinnar að opna Jan Mayen-svæðið til olíuleitar segir hann að það hafi verið heppni fyrir Noreg að fyrsta olíuútboð Íslands í fyrra á Drekasvæðinu skyldi hafa klúðrast. Hann segir að tvö norsk olíufélög, Sagex og Aker Petrolium, hafi séð mikil tækifæri á svæðinu, og fleiri verið áhugasöm, þrátt fyrir krefjandi aðstæður, en þau hefðu sennilega þurft fleiri og stærri samstarfsaðila. Þau hafi hins vegar bæði hætt við og telur Hans Henrik að ónothæft skattkerfi Íslands hafi þar ráðið miklu.

Íslenska fjármálaráðuneytinu hafi tekist að búa til svo illskiljanlegt skattkerfi, að það eitt og sér dugði til að fæla olíufélögin frá, þrátt fyrir ýmsa jákvæða þætti. Hans Henrik býst hins vegar við að Íslendingar lagi skattkerfið og bjóði út að nýju og þannig sé mögulegt að þeim takist að koma starfseminni af stað. Af þeirri ástæðu sé nauðsynlegt fyrir Norðmenn að hefjast einnig handa á svæðinu og telur hann að þjóðirnar geti unnið saman að því að gera olíuleit þar aðlaðandi.

Meginhluti greinarinnar er hins vegar gagnrýni á norska ríkisstjórnina og olíumálaráðherrann er sakaður um sýndarmennsku með opnun Jan Mayen-svæðisins því ágreiningur innan ríkisstjórnarflokkanna komi í veg fyrir að olíuleit verði heimiluð á mun áhugaverðari svæðum undan Noregsströndum, við Lófót og Vesturál.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×