Skoðun

Lögmaður með leiðindi

Jóhann Páll Jóhannsson og skrifa

Brynjar Níelsson, hæstaréttarlögmaður og formaður Lögmannafélags Íslands, skrifar reglulega greinar á vefsvæðið Pressan.is. Nýlega birtist eftir hann grein þar sem hann sló á létta strengi, talaði af yfirlætislegri kaldhæðni um ,,snillinga ársins" og býsnaðist yfir þeirri gagnrýni sem svokölluð ,,lagahyggja" hefur sætt. Jafnframt hneykslaðist hann á því að úrskurður Hæstaréttar um stjórnlagaþingskosningarnar væri véfengdur, en gerði hins vegar enga tilraun til að svara þeim málefnalegu athugasemdum sem við úrskurðinn hafa verið gerðar.

Það gefur auga leið að margir veltu fyrir sér hvað í ósköpunum Brynjari gengi til. Á bloggsíðum Egils Helgasonar, Jónasar Kristjánssonar og Friðriks Þórs Guðmundssonar var réttilega bent á að í greininni hefði hann ekkert lagt til málanna nema skæting og hótfyndni. Þetta virðist Brynjar hafa tekið nærri sér, því síðastliðinn miðvikudag birtist splunkuný grein eftir hann þar sem hann svarar þessum mönnum.

Brynjar segir þá láta í veðri vaka að hann sé andsnúinn gagnrýni á dómstóla. Annaðhvort hefur Brynjar misskilið athugasemdir Egils, Jónasar og Friðriks hrapallega, eða þá að hann fer hreinlega viljandi með rangt mál. Ómögulegt er að skilja texta þeirra á þann hátt sem Brynjar gerir nema meiriháttar túlkunarkúnstum sé beitt.

Hins vegar er ýmislegt í máli Brynjars sem bendir til þess að honum sé í nöp við gagnrýni á dómstóla. Eða hví ætti hann annars að svara gagnrýnisröddum á svona ómálefnalegan og yfirlætislegan hátt, ,,með hótfyndni og skætingi? Og hvers vegna kastar Brynjar því til dæmis fram að ekki sé hægt að ,,setja lögskýringar upp í þríliðu" í stað þess að svara málefnalega hinum greinargóðu athugasemdum Reynis Axelssonar stærðfræðings við dóm Hæstaréttar? Þótt Brynjar segist sjálfur oft hafa gagnrýnt niðurstöður dómstóla, þá er honum greinilega ekki sama hvaðan gagnrýnin kemur eða að hvaða dómsmálum hún snýr.

Brynjar tönnlast á því að dómurum beri að dæma eftir lögunum. Það vita nú flestir. Þó hlýtur líka að vera mikilvægt að dómarar hafi lögin rétt eftir þegar þeir vitna í þau, en sleppi ekki úr heilli klausu eins og er til að mynda gert í úrskurði Hæstaréttar um stjórnlagaþingskosningarnar.

Ég man ekki eftir að hafa heyrt ,,snillinga ársins" hvetja til þess að dómarar hætti að dæma eftir lögunum. Hins vegar hafa þeir og fleiri mælst til þess að lagaumhverfið sé betrumbætt svo réttarkerfið sé betur í stakk búið að taka á hvítflibbaglæpum. Það þykir ekki öllum tilhlýðilegt að menn geti keyrt heilt þjóðfélag í þrot undir verndarvæng laganna.

Í fyrri grein sinni gerði Brynjar grín að því að ákvörðun Hæstaréttar um ógildingu stjórnlagaþingskosninganna væri sett í samhengi við fjölskyldutengsl og pólitískan bakgrunn dómaranna. Í þeirri seinni víkur hann svo orðum að réttarfari alræðisríkja, þar sem ,,úrlausn ágreinings er gjarnan í boði Flokksins eða valdhafans." Þegar Brynjar gerir því skóna að ,,snillingar ársins" vilji koma á slíku fyrirkomulagi getur maður vart varist hlátri. Og þegar hann fullyrðir að þeir boði ,,menningarbyltingu" og gefur í skyn að þeir vilji knésetja sjálfstæða dómstóla, þá nær fáránleikinn hámarki.

Ljóst er að 22 af þeim 25 sem náðu kjöri til stjórnlagaþings vilja binda þjóðareign auðlinda í stjórnarskrána, kvótaeigendum til sárrar skapraunar. Brynjar sér ekkert athugavert við það að meirihluti þeirra sem dæmdu um lögmæti kosninganna hafi á ýmsum tímum mælt opinberlega gegn þjóðareign eða unnið að málum sem tengjast kvótakerfinu. Brynjari virðist jafnframt þykja ofureðlilegt að einn þeirra sé bróðir kvótadrottningar Íslands. Og ætli honum finnist ekki bara gott og blessað að allir dómarar Hæstaréttar, að aðeins einum undanskildum, séu skipaðir af einum og sama flokknum? Flokki sem hefur svo sannarlega ekki farið dult með andúð sína á stjórnlagaþinginu? Brynjar er blindur. Hann lætur dæluna ganga um réttarfar alræðisríkja, en sér ekki að flokksræðistilburðirnir eru beint fyrir framan nefið á honum.

Í upphafi greinar sinnar segir Brynjar að ,,dass af hroka" geti verið þjóðmálaumræðunni til góðs. Ég vil hins vegar ljúka minni grein á því að hvetja Brynjar til að endurskoða hug sinn. Skætingur, hótfyndni og hroki er síst það sem þjóðmálaumræðan þarfnast.






Skoðun

Sjá meira


×