Skoðun

Þegar eftirlit ríkisins með sjálfu sér bregst

Jakob S. Friðriksson skrifar
Það er ekki einfalt að hafa eftirlit með sjálfum sér. Það krefst vinnubragða sem eru hafin yfir vafa. Hér er fjallað um dæmi þar sem eftirlitið hefur brugðist.

Nýlegar upplýsingar frá Orkustofnun um meira en sex milljarða oftöku Landsnets á tekjum af flutningi raforku og viðurkenning orkumálastjóra á að eftirliti stofnunar hans með verðskrá Landsnets hafi verið áfátt leiðir þetta í ljós.

Orkuveita Reykjavíkur hefur krafist þess ítrekað á síðustu árum að þessi oftaka tekna yrði leiðrétt í samræmi við lög. Þau segja að árlega skuli gera upp hvaða tekjur Landsnet má hafa og leiðrétta gjaldskrána jafnharðan. Það hefur ekki verið gert vegna áranna 2006, 2007, 2008 og 2009. Erindi OR til Landsnets, Orkustofnunar og iðnaðarráðuneytisins hafa ekki náð að breyta því. Þess vegna eru nú sjóðum Landsnets liðlega sex milljarðar króna sem fyrirtækið á ekki.

Nú liggur fyrir alþingi frumvarp sem felur í sér að ekki verði farið að gildandi lögum um tafarlausa leiðréttingu á oftökunni. Þess í stað hafi Landsnet heilan áratug til að greiða milljarðana til baka , vaxtalausa. Í umfjöllun Kastljóssins nú upp úr áramótunum var á þetta bent. Annað atriði, sem ekki hefur verið í umræðunni er að þrátt fyrir að frumvarpið sé nú komið til 2. umræðu í þingsölum hafa engar upplýsingar komið fram um hvaða áhrif það muni hafa á gjaldskrá Landsnets til framtíðar.

Í raun hefur fengist staðfest við umfjöllun þingnefndar að í öllum undirbúningi málsins hafi áherslumál Landsnets notið forgangs og að ekki hafi verið tekið tillit til athugasemda og ábendinga orkufyrirtækja og dreifiveitna. Því er ekki að undra að OR bendi á að litið sé framhjá heildarhagsmunum.

Eftir stendur spurningin hvort löggjafinn ætlar að staðfesta þá eignaupptöku sem slök stjórnsýsla hefur látið viðgangast.








Skoðun

Sjá meira


×