Viðskipti innlent

Svartsýniskastið frá síðasta hausti er liðin tíð

Íslenskir neytendur eru vongóðir og bjartsýnir í upphafi nýs árs ef marka má væntingavísitölu Capacent Gallup sem birt var nú í morgun. Vísitalan sem mælir væntingar neytenda til efnahags- og atvinnulífsins hækkaði um 13,2 stig frá fyrri mánuði og stendur nú í 61,5 stigum.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að svo virðist vera sem svartsýniskastið sem landinn tók síðastliðið haust sé nú liðið hjá, en vísitalan er nú komin á svipaðan stað og um mitt síðasta sumar.

Þegar að hausta tók fór svo að fjara undan bjartsýninni á nýjan leik og fór vísitalan niður í 32 stig í október.Núna virðast landsmenn hins vegar vera að jafna sig og fara tiltölulega bjartsýnir inn í nýtt ár.

Á síðasta ári mældist vísitalan að meðaltali 53 stig og er því ljóst að landinn er heldur bjartsýnni nú en hann var að jafnaði á síðasta ári. Þá eru landsmenn einnig mun bjartsýnni nú heldur í upphafi síðasta árs en fyrir ári síðan var vísitalan 37,1 stig.

Eins og kunnugt er mælir vístalan væntingar neytenda til efnahags- og atvinnulífsins, og þegar vísitalan er undir 100 stigum eru fleiri neytendur svartsýnir en bjartsýnir. Tæplega 3 ár eru síðan að vísitalan fór yfir 100 stig en það var í febrúar 2008 þegar hún var 102,2 stig. Sögulegu lágmarki náði vísitalan í janúar 2009 þegar hún fór niður í 19,5 stig.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×