Erlent

Stríðsmenn al Qaeda til Líbíu

Stillimynd úr myndskeiði sem al Qaeda sendu frá sér 20. desember síðastliðinn.
Stillimynd úr myndskeiði sem al Qaeda sendu frá sér 20. desember síðastliðinn. Mynd/AFP
Leiðtogar Al Qaeda hafa sent reynda stríðsmenn til Líbíu til að safna saman herafla þar. Þetta kemur fram á vef CNN.

Einn liðsmanna al Qaeda hefur verið í Líbíu síðan í maí þegar tök Gaddafi á landinu byrjuðu að linast. Á þeim tíma hefur hann hóað saman vopnfærum mönnum og ræður nú um 200 manna liðsafla. Erlendar leyniþjónustur eru meðvitaðar um starfsemi hans í landinu.

Fyrr í þessum mánuði sendu al Qaeda frá sér myndskeið til Líbísku þjóðarinnar sem birtust á netsíðum. Þar voru íbúar landsins hvattir til að taka upp trú múslima og afneita vesturlöndum. „Á þeim krossgötum sem þið nú standið getið þið annað hvort valið veraldlega stjórn sem geðjast gráðugu krókódílum vestursins og verður notuð þeim í hag, eða þið stappið við þeim fætinum og veljið andlegt ríki og trúna á Allah," sagði í myndskeiðinu.

Öfgahópar hafa lengi haft einhver ítök í austurhluta Líbíu en þeim var grimmilega haldið niðri af stjórn Gaddafí. Leyniþjónustur vestrænna ríkja hafa lýst áhyggjum yfir því að al Qaeda og aðrir öfgahópar nái aukinni fótfestu í Líbíu núna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×