Viðskipti innlent

Gert ráð fyrir rekstrarafgangi hjá Reykjanesbæ

Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar fyrir árið 2011 var samþykkt í bæjarstjórn 4. janúar 2011 með 7 atkvæðum sjálfstæðismanna og 4 fulltrúar minnihlutans sátu hjá.

Fjárhagsáætlunin gerir ráð fyrir að rekstrarafgangur bæjarsjóðs nemi um 121,4 milljónum króna. og afgangur samstæðu verði um 396,4 milljónir. Rekstrarafgangur fyrir fjármagnsliði, að teknu tilliti til reiknaðra liða nemur um 201,4 milljónir króna. Eignir á hvern íbúa eru áætlaðar 2.494 þúsund krónur og skuldir fyrir hvern búa 2.034 þúsund krónur. Veltufé frá rekstri er áætlað um 881,3 milljónir króna. fyrir bæjarsjóð og um 2.401,2 milljónir yrir samstæðu.

Fjárhagsáætlun 2011 var unnin af öllum ráðum og nefndum bæjarins, með tillögum frá starfsmönnum og íbúum.

Í tilkynningu frá bæjarskrifstofu Reykjanesbæjar segir að við gerð fjárhagsáætlunarinnar hafi verið reynt að skerða ekki grunnþjónustu við bæjarbúa á árinu 2011 og haft að leiðarljósi að hlúa að börnum og unglingum. „Gjaldskráhækkunum er stillt í hóf og er enn frítt í sund fyrir börn og eldri borgara sem og frítt í strætó. Leikskólagjöld er með þeim lægstu í samanburði við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu fyrir utan Reykjavík. Einnig er máltíð fyrir börn í grunnskólum lægst hjá Reykjanesbæ ef miðað er við höfuðborgarsvæðið," segir þar.

Þá kemur fram að talsverð hagræðing hafi náðst í stjórnsýslu bæjarins. Kostnaður vegna nefnda hafi lækkað vegna launalækkunar og fækkunar funda. Talsverðar starfshlutfallsskerðingar hafi verið í stjórnsýslunni. „Reynt er að ráða ekki í störf sem losna nema brýna nauðsyn beri til. Hagrætt er í leiðarkerfi strætó," segir í tilkynningunni.


Tengdar fréttir

Komið að skuldadögum hjá Reykjanesbæ

„Eytt hefur um efni fram og nú er komið að skuldadögum,“ segir í bókun sem fulltrúar Samfylkingar lögðu fram á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar í gær þar sem fjárhagsáætlun bæjarfélagsins fyrir árið 2011 var samþykkt af bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins en minnihlutinn sat hjá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×