Erlent

Hefði aldrei átt að fara til Íraks

Hermaðurinn, lengst til vinstri á myndinni, mætir til undirbúningsdómþings í Bandaríkjunum.
nordic photos/AFP
Hermaðurinn, lengst til vinstri á myndinni, mætir til undirbúningsdómþings í Bandaríkjunum. nordic photos/AFP
Verjendur Bradley Manning, hermannsins sem sakaður er um að hafa lekið ógrynni leyniskjala til Wikileaks, kölluðu aðeins tvö vitni fyrir í undirbúningsdómþingi, sem lauk í gær.

Innan nokkurra vikna verður svo ákveðið hvort hann verði leiddur fyrir herrétt.

Verjendurnir byggðu mál sitt einkum á því að Manning eigi við andlega erfiðleika að stríða og hefði því ekki átt að hafa aðgang að leynilegum skjölum. Reyndar hefði alls ekki átt að senda hann til herþjónustu í Írak.

Vitnin tvö, sem verjendur kölluðu til, eru annars vegar liðþjálfi sem varð vitni að skapofsakasti Mannings, hins vegar höfuðsmaður sem hafði Manning í liði sínu.

Verjendur segja Manning hafa tekið afrit af hundruðum þúsunda leyniskjala, meðal annars frá sendiráðum Bandaríkjanna víða um heim, og myndbandsupptökum af þyrluárás í Bagdad sem varð ellefu manns að bana.

Julian Assange, stofnandi Wikileaks, hefur aldrei staðfest að það hafi verið Manning sem lak þessum skjölum. Assange hefur hins vegar sagt að birting leyniskjalanna hafi átt sinn þátt í að kveikja uppreisnarhreyfingu í arabalöndunum.

Stuttu áður en „arabíska vorið“ hófst í Túnis fyrir nánast réttu ári höfðu birst leyniskjöl sem staðfestu spillingu þáverandi forseta landsins, sem hrökklaðist frá völdum fáeinum vikum síðar.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×