Erlent

Á að vinna gegn kreppunni

Mario Draghi Seðlabankastjóri Evrópusambandsins sagður taka áhættu með nýja útspilinu.nordic photos/AFP
Mario Draghi Seðlabankastjóri Evrópusambandsins sagður taka áhættu með nýja útspilinu.nordic photos/AFP
Seðlabanki Evrópusambandsins skrúfaði í gær frá lánakrönum sínum og útvegaði 523 evrópskum bönkum lán upp á samtals 489,2 milljarða evra, í von um að geta með þessu liðkað verulega fyrir viðskiptum á evrusvæðinu. Þessi fjárhæð samsvarar 78.000 milljörðum króna.

Með þessu vonast bankinn til að rífa efnahagslíf evruríkjanna upp úr lamandi kreppunni, sem annars virðist ætla að stefna framtíð myntbandalags Evrópusambandsins í voða.

Lánin eru á lágum vöxtum og ekki þarf að endurgreiða þau fyrr en í byrjun árs 2015. Búist er við að bankinn bjóði sambærileg lán til þriggja ára aftur áður en langt um líður.

Heildarfjárhæðin var þó mun meiri en reiknað hafði verið með, því talið var að seðlabankinn hygðist leggja fram 300 milljarða evra að þessu sinni.

Bankarnir geta nú notað þetta fé til að lána áfram til framkvæmda og viðskipta af ýmsu tagi og þannig ýtt undir hagvöxt á evrusvæðinu, sem annars virðist stefna í að minnsta kosti vægan samdrátt á næstunni.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×