Erlent

Mótmæltu framkomu hermanna

á götum kaíró Konurnar mótmæltu ofbeldi hermanna í gær, en herforingjastjórnin hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir framkomu sína. fréttablaðið/ap
á götum kaíró Konurnar mótmæltu ofbeldi hermanna í gær, en herforingjastjórnin hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir framkomu sína. fréttablaðið/ap
Um tíu þúsund egypskar konur mótmæltu á Frelsistorginu í Kaíró, höfuðborg Egyptalands, í gær. Þær mótmæltu framkomu og ofbeldi hermanna gagnvart þeim í mótmælum undanfarna daga, þar sem þeir drógu kvenkyns mótmælendur meðal annars um á hárinu, auk þess sem ein kona var afklædd og barin.

Harka hermanna gagnvart mótmælendum undanfarna daga hefur vakið mikla reiði, en mótmælendurnir krefjast þess að herforingjastjórnin fari frá völdum strax. Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sakaði herforingjastjórnina á mánudag um að ráðast skipulega gegn konum í þessum mótmælum. Verið væri að niðurlægja konur á sama stað og þær hefðu hætt lífi sínu fyrir byltinguna og breytingar. Framkoma herforingjastjórnarinnar gerði lítið úr byltingunni og væri ríkinu til skammar.

Karlkyns mótmælendur mynduðu verndarhring utan um konurnar sem mótmæltu. Mótmælin hafa staðið síðan á föstudag og hafa að minnsta kosti fjórtán manns látið lífið í þeim.

Herforingjastjórnin sendi frá sér afsökunarbeiðni í gær, eftir að hafa gert lítið úr málinu í marga daga. Stjórnin sagðist ítreka virðingu sína og þakklæti til egypskra kvenna. Þær hefðu rétt á því að mótmæla og taka þátt í stjórnmálum. Þá lofaði stjórnin því að þeir hermenn sem beitt hefðu konurnar ofbeldi yrðu látnir sæta refsingu.- þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×