Erlent

Áreynslulaust nám framtíðin?

Rannsókn bandarísku og japönsku vísindamannanna vekur vonir um að í framtíðinni verði hægt að auðvelda til dæmis hljóðfæranám til muna.
Fréttablaðið/Valli
Rannsókn bandarísku og japönsku vísindamannanna vekur vonir um að í framtíðinni verði hægt að auðvelda til dæmis hljóðfæranám til muna. Fréttablaðið/Valli
Ný rannsókn, sem fjallað var um í tímaritinu Science í síðustu viku, bendir til þess að hægt sé að nýta heilaörvandi tækni til að auka færni eða þekkingu einstaklinga án áreynslu.

Í rannsókninni var þátttakendum gert að leysa ákveðin sjónræn verkefni í tölvu á meðan vísindamennirnir notuðu stafræna segulómmyndun til að fylgjast með heilastarfsemi þeirra.

Vísindamennirnir höfðu áður kortlagt heilastarfsemina í einstaklingum sem höfðu mikla færni við úrlausn þessara sömu verkefna. Því næst var sjónbörkurinn í heila þátttakendanna örvaður þannig að heilastarfsemi þeirra líktist heilastarfseminni sem hafði þegar verið kortlögð.

Kom í ljós að við þetta jókst færni þátttakendanna við úrlausn verkefnanna talsvert þar sem þeir beittu heila sínum á líkan hátt og þeir sem voru færir við úrlausn verkefnanna.

Niðurstöðurnar vekja vonir um að í framtíðinni verði hægt að beita svipuðum aðferðum til að auka færni einstaklinga við ýmis önnur verkefni, svo sem við hljóðfæraleik eða jafnvel hefðbundið bóknám.

Það voru vísindamenn við Boston-háskóla og ATR Taugavísindastofnunina í Kyoto sem stóðu fyrir rannsókninni.

- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×