Erlent

Klámbúllumyndin af kónginum talin fölsuð

karl Gústaf Svíakonungur
karl Gústaf Svíakonungur
Sænska dagblaðið Expressen birti í gær mynd sem fyrrverandi klámbúllueigandinn og glæpamaðurinn Mille Markovic fullyrðir að sé af Karli Gústaf Svíakonungi innan um nektardansmeyjar.

Expressen hefur látið sérfræðinga þriggja myndgreiningarfyrirtækja, tveggja breskra og eins sænsks, rannsaka myndina. Niðurstaða rannsókna þeirra er að vissir hlutar myndarinnar séu falsaðir, samkvæmt frásögn Expressen.

Á myndinni, sem er af myndbandsupptöku, situr karlmaður, hallar sér aftur og horfir á léttklæddar konur sem gamna sér í sófa. Viss tæknileg atriði þykja geta bent til þess að skipt hafi verið um andlit á myndinni. Það er ljósara en aðrir líkamshlutar mannsins auk þess sem birtan fellur öðruvísi á hann heldur en á aðra hluta myndarinnar. Markovic, sem dæmdur hefur verið fyrir fjölda afbrota, sagði á leið í réttarsal í gær að átt hefði verið við myndina til þess að vernda stúlkurnar.

Myndin verður birt í ævisögu Markovic sem kemur út í janúar. Ævisöguritarinn, Deanne Rauscher, er annar höfunda bókar um konunginn sem kom út í fyrra, Den motvillige monarken, en í henni var greint frá meintum kvennamálum konungs og heimsóknum hans í klúbba glæpamanna.

Meirihluti Svía vill að konungurinn láti af embætti samkvæmt niðurstöðu könnunar á vegum TV4 sem gerð var fyrir nokkrum dögum. Staða konungs hefur versnað enn frekar eftir fréttir af leynilegum samningaviðræðum náins vinar hans við mafíuna um að Markovic hætti við birtingu meintra konungsmynda gegn greiðslu upp á milljónir sænskra króna. - ibs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×