Skoðun

Sköpum samstöðu

Forysta stjórnarflokkanna nærist á átökum. Það er gömul saga og ný. Það er því eftir öðru að helsta markmið formanns VG virðist nú vera að losna við efnahags- og viðskiptaráðherrann úr ríkisstjórn. Hann hefur ógnað foringjaræðinu sem forsætisráðherra og fjármálaráðherra virðast hafa tileinkað sér. Enginn treystir Steingrími Joð fyrir alvaldi í efnahagsmálum, en hann virðist ekki hlusta nú frekar en fyrri daginn.

Árni Páll Árnason hefur skapað sér ákveðna sérstöðu í ríkisstjórninni á undanförnum mánuðum. Hann hefur einn ráðherra talað fyrir því að fundin verði skynsamleg leið til sátta í ágreiningi um fiskveiðistjórnunarkerfið. Forystumenn ríkisstjórnarinnar hafa hins vegar lagt sig fram um að næra átök og ágreining um það mál.

Hann hefur líka haldið með góðum hætti á Icesasve-málinu, eftir að þjóðin hafnaði Icesave-samningnum. Þótt Árni Páll hafi verið eindreginn talsmaður samninga um Icesave-málið hefur hann virt niðurstöðu þjóðarinnar og lagt sig fram um að byggja víðtæka samstöðu um málsvörn Íslands. Sú aðferðafræði sem hann hefur beitt í því efni er til fyrirmyndar. Fulltrúar ólíkra fylkinga hafa verið fengnir til ráðgjafar um málsvörnina og hefur Árni Páll beinlínis sóst eftir sjónarmiðum andstæðinga Icesave-samninganna.

Fyrir vikið hefur loksins tekist víðtæk sátt um þetta deilumál. Nú þegar við stöndum frammi fyrir málaferlum af hálfu ESA þurfum við á slíkri samstöðu að halda. Aðferðirnar sem Árni Páll hefur nú beitt sér fyrir, sýna betur en nokkuð annað hversu auðvelt hefði verið að ná alvöru sátt um meðferð Icesave-málsins, ef menn hefðu nálgast það með opnu hugarfari strax í upphafi. Það er því ekki að undra að vart verði ákveðinnar öfundar úr herbúðum fjármálaráðherrans, þess sama ráðherra sem vildi ekki upplýsa þingið strax um gerð fyrsta Icesave-hörmungarsamnings.

Hættan í dag er sú að forystumenn ríkisstjórnarinnar nálgist nú málaferli Icesave-málsins með það í huga að verja sögu og fyrri afstöðu þeirra sjálfra. Vinnubrögð Árna Páls vita þó á annað.

Þjóðin þarf nú á samstöðu að halda. Við þurfum öll að vinna saman að sameiginlegu marki og sameinast eins og kostur er um meginlínur í uppbyggingu efnahagslífsins. Eins og forystumenn ríkisstjórnarinnar hafa unnið fram til þessa kemur ekki á óvart að þeir vilji senda þau skilaboð til þjóðarinnar að þeir vilji losna við þann ráðherra sem helst hefur viljað vinna þvert á flokkslínur og skapa aukna samstöðu um mikilvægustu úrlausnarmálin.




Skoðun

Sjá meira


×