Viðskipti innlent

Hagvöxtur eykst sem og fjárfestingar

Forsætisráðherra segir nýjar hagvaxtatölur mjög ánægjulegar. Fréttablaðið/anton
Forsætisráðherra segir nýjar hagvaxtatölur mjög ánægjulegar. Fréttablaðið/anton
Hagvöxtur var 3,7 prósent á fyrstu níu mánuðum ársins. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir þetta mjög ánægjulegar tölur sem sýni að hagvöxtur fárra þjóða aukist jafn hratt og Íslendinga. Hún segir auknar útflutningstekjur og í atvinnuvegafjárfestingu þýða meiri atvinnu og þá hafi ferðaþjónustan komið sérstaklega vel út. Einkaneysla sé einnig að aukast.

„Þetta er í raun eins og við bjuggumst við og í samræmi við okkar spár. Þetta er þvert á bölmóð stjórnarandstöðunnar og sýnir að efnahagsstjórnin hefur heppnast vel,“ segir Jóhanna. Hún segir bætt ástand endurspeglast í hærri launum og lífeyri og hærri atvinnuleysisbótum. Þá hafi kaupmáttur vaxið um 3,5 prósent frá desember 2010 til október 2011. Árangur sem ríkisstjórnin hafi stefnt að sé að skila sér.

„Við þurfum bara að halda áfram og skila enn meiri hagvexti. Það er útlit fyrir að spár okkar varðandi kjarasamningana muni ganga fram og við vonumst eftir enn meiri hagvaxtaraukningu, minna atvinnuleysi og meiri atvinnuvegafjárfestingu.

Það hafa allir lagt sig fram um að ná árangri í efnahagsstjórninni og góður árangur hefur náðst í ríkisfjármálum.“

Forsætisráðherra segir mælikvarða sem settir voru við fjárlagagerð munu nást. Ríkissjóður sé rekinn með 1,2 prósenta halla en frumjöfnuður sé jákvæður um 2 prósent. Það þýði 35 milljarða,sem sé ótrúlega góður árangur.

„Þetta endurspeglast í hærra lánshæfismati og er mjög jákvætt fyrir Ísland.“- kóp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×