Skoðun

Afgangsfötin umbreytast í hjálpargögn í Sómalíu

Þórir Guðmundsson skrifar

Í hrjóstrugum hæðum í norðaustanverðri Afríku umbreytast afgangsföt almennings á Íslandi í hjálpargögn fyrir heimilislausa sómalska flóttamenn. Hvergi sést skýrar hvernig fatnaður sem almenningur gefur Rauða krossinum veitir lífsbjörg á vettvangi hamfara og örbirgðar.

Eitthvað af fatnaði fer beint í hjálparstarfið – hér heima og á sléttum Hvíta-Rússlands – og annað verður að peningum með sölu til útlanda eða í fataverslunum Rauða krossins. Í þetta sinn voru peningarnir notaðir til að hjálpa flóttafólki í Sómalíu.

Fadma Abdullah lætur sig þó litlu varða hvaðan gott kemur. „Við hjónin erum með fimm börn og við höfum sofið úti í sjö sólarhringa,“ segir hún við mig þar sem ég fylgist með dreifingu hjálpargagnanna í eyðimörkinni utan við borgina Hargeysa. Fadma heldur fast utan um pakkana sem sjálfboðaliðar Rauða hálfmánans voru að rétta henni.

Stopular rigningardembur eru farnar að koma og þá hefur þessi stóra fjölskylda ekkert skjól. Fyrr en nú. Meðal hjálpargagna frá Rauða krossi Íslands eru tveir stórir og þykkir plastdúkar, 4x6 metra, sem munu gefa þeim þak yfir höfuðið. Þau fá líka potta og pönnur, hreinlætisvörur, teppi og fötur.

Hjálparstarf Rauða kross Íslands í Sómalíu er tvíþætt. Á meðan fatasöfnun félagsins fjármagnar aðstoð við um 20 þúsund flóttamenn hafa framlög almennings verið notuð til að kaupa bætiefnaríkt hnetusmjör, sem er gefið alvarlega vannærðum börnum í sunnanverðri Sómalíu. Okkur telst til að fyrir aðstoðina frá Íslandi hafi tekist að hjúkra allt að 30 þúsund börnum til heilbrigðis. Samtals eru þetta því 50 þúsund mannslíf sem Íslendingar hafa snert.

Af öryggisástæðum kemst ég ekki til sunnanverðrar Sómalíu til að fylgjast með dreifingu hnetusmjörsins. En starfið fer samt fram og reyndar er Rauði krossinn ein af fáum hjálparstofnunum sem skæruliðar leyfa að athafna sig.

Nýhafnar rigningar bera með sér von um betri tíð. Dýr hirðingjanna braggast furðufljótt og bændur nota tækifærið til að sá. Hjálparstarfinu er hvergi nærri lokið en útlitið er aðeins bjartara en áður.




Skoðun

Sjá meira


×