Erlent

Refsiaðgerðir gegn Sýrlandi

Fjöldi hermanna mætti við útför nokkurra herflugmanna, sem vopnaðir uppreisnarmenn réðust á og drápu fyrir helgi.
nordicphotos/AFP
Fjöldi hermanna mætti við útför nokkurra herflugmanna, sem vopnaðir uppreisnarmenn réðust á og drápu fyrir helgi. nordicphotos/AFP
Arababandalagið samþykkti í gær refsiaðgerðir gegn Sýrlandi, í von um að það dugi til að fá sýrlensk stjórnvöld til að láta af aðgerðum gegn mótmælendum, sem kostað hafa fjölda fólks lífið.

Þetta er í fyrsta sinn sem Arabandalagið samþykkir refsiaðgerðir gegn ríki úr eigin röðum. Fyrir nokkrum dögum ákvað bandalagið að vísa Sýrlandi úr samtökunum.

Nítján af 22 aðildarríkjum Arabandalagsins greiddu atkvæði með refsiaðgerðunum, sem felast meðal annars í því að arabaríki hætta að fjárfesta í verkefnum í Sýrlandi og viðskiptum við seðlabanka Sýrlands verður hætt. Þá verða eignir sýrlensku stjórnarinnar í ríkjum bandalagsins frystar.

Írak og Líbanon sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.

Sýrlensk stjórnvöld segja refsiaðgerðirnar lögleysu. Með þeim sé auk þess samstaða arabaríkjanna rofin. Þessi ákvörðun Arababandalagsins er mikið áfall fyrir sýrlensk stjórnvöld, ekki aðeins efnahagslega heldur einnig vegna þess að Sýrlendingar hafa litið á sig sem eitt helsta áhrifaríki bandalagsins.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×