Skoðun

Mannréttindabrot Orkuveitunnar?

Heimir Laxdal Jóhannsson skrifar
Yfirgengileg hækkun Orkuveitunnar á inntaksgjöldum hefur ekki farið fram hjá neinum. Allavega ekki þeim sem neyðst hefur til að versla við þetta einokunarfyrirtæki sem þessa dagana hefur verið afhjúpað sem eitthvað sem helst líkist sirkus, stjórnað af trúðum.

Með þessum gríðarlegu hækkunum á inntaksgjöldum t.d. er verið að velta afleiðingunum af fíflaskapnum yfir á varnarlaust fólk sem má sín lítils gegn skriðdreka Orkuveitunnar. Þar sem þessi rúma þreföldun á upphæð gjaldanna á einu bretti bitnar á fólki sem þvingað hefur verið til að skipta úr rafhitun og yfir í hitaveitu er um hreina eignaupptöku að ræða, brot á eignaréttinum og þar með mannréttindum.

Aðferðin á mannamáli er sú að sagt er við fólk: Annað hvort skiptir þú yfir í hitaveitu góði minn eða við tvöföldum hjá þér kyndikostnaðinn. Meðsek í þessum glæp eru stjórnendur ríkis og sveitar sem standa á bak við ránið og skipulögðu það með gríðarlegum ábata eins og kom fram í frétt nýverið.

Þessi sama aðferð er þekkt úr dimmum húsasundum skuggalegra glæpahverfa stórborga. Hún er þannig að til þín kemur glæpamaður og segir: „Láttu af hendi peningana þína eða þú hefur verra af.“ Örlítið annað orðalag en sama aðferð og sami gerningurinn í raun. Hún er líka þekkt í undirheimum hérlendis. Þú færð handrukkara í heimsókn og hann segir þetta sama við þig: „Peningana eða þú hefur verra af.“ Og hinir blönku eru þvingaðir út í banka til að taka út sparnaðinn sinn eða slá lán.

Eins hegða sveitarfélög sér sem og Orkuveitan gagnvart hinum almenna borgara þar sem um hitaveituvæðingu svæða er að ræða þar sem þegar er fyrir hendi innlendur orkugjafi á viðunandi verði, raforka. Vinnubrögðin í orkuvæðingu „köldu svæðanna“ eru eins og handrukkarans þótt fáir virðist koma auga á það. Báðir aðilar segja: „Láttu af hendi peningana þína eða þú hefur verra af.“

Siðleysið í vinnubrögðum við orkuvæðingu „köldu svæðanna“ eða rafkyndingarsvæðanna öllu heldur verður augljóst í þessu samhengi, hvernig brotið er á eignaréttinum og hvernig þar með er framið mannréttindabrot á fólki sem þvingað er út í útgjöld sem geta slagað hátt í milljón per heimili. Framlag orkuveitunnar nú á þessum sorphaugi íslenskrar stjórnsýslu og stjórnunar er svo að þeir sem áttu í erfiðleikum með að borga þegar OR hentaði lenda í því sama og þeir sem lenda í sömu vandræðum í „viðskiptum“ við handrukkara, reikningurinn er margfaldaður.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×