Skoðun

ESB, landbúnaðurinn og Fréttablaðið

Erna Bjarnadóttir skrifar
Málefni landbúnaðarins eru Fréttablaðinu hugleikin eins og sést nú síðast í forystugrein blaðsins fimmtudaginn 17. nóvember. Ritstjóri blaðsins fjallar þar um skýrslu sem leggur mat á líkleg áhrif afnáms tolla á búvörur við aðild Íslands að ESB.

Í stuttu máli afgreiðir hann 36 blaðsíðna skýrslu, sem inniheldur víðtækar lýsingar á fyrirvörum á þeirri greiningu sem þar er unnin, með því að segja að tölurnar í skýrslunni sýni skilmerkilega hver sé ávinningur neytenda af ESB-aðild. Þarna dregur ritstjórinn víðtæka ályktun og kýs að lesa eitthvað allt annað út úr skýrslunni en þar stendur. Sannleikurinn er sá, og þetta get ég fullyrt með vissu þar sem ég er annar höfunda skýrslunnar, að þar stendur mjög lítið um verð til neytenda. Erfitt er að draga nokkrar ályktanir um útsöluverð búvara út frá því sem fram kemur í skýrslunni. Til þess þyrfti upplýsingar um verðmyndun á landbúnaðarvörum hér og í Evrópu en þær upplýsingar höfðu skýrsluhöfundar ekki.

Á það er bent í skýrslunni hvernig smásalan í Finnlandi jók markaðsstyrk sinn og hlut í útsöluverði búvara við aðild landsins að ESB. Þótt verð til bænda lækkaði um tugi prósenta skilaði það sér ekki með sambærilegri verðlækkun til neytenda. Einnig er vikið að því að brauð og brauðvörur eru mun ódýrari í ESB en hér á landi. Munurinn er síst minni en á öðrum matvörum þótt ekki séu lagðir tollar hér á landi á innflutt hráefni til brauðgerðar eða aðrar innfluttar kornvörur. Annað sem er mikilvægt að benda á er að niðurstöður skýrslunnar byggja á mun sterkara gengi krónunnar heldur en við búum við í dag.

Ályktun ritstjórans um ávinning neytenda af ESB-aðild vegna niðurfellingar tolla á búvörum er úr lausu lofti gripin. Það væri óskandi að fjallað væri af meiri nákvæmni um viðfangsefnið í framtíðinni í hinu víðlesna Fréttablaði.




Skoðun

Sjá meira


×