Skoðun

Snjór eða vatn?

Guðný Dóra Gestsdóttir og Margrét Júlía Rafnsdóttir skrifar
Á aðalfundi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, sem haldinn var föstudaginn 4. nóvember, var samþykkt tillaga þess efnis að óska eftir samstarfi við ráðuneyti ferðamála um uppbyggingu snjóframleiðslu í Bláfjöllum.

Krafan um snjóframleiðslu í Bláfjöllum hefur verið nokkuð hávær undanfarið og finnst skíðafólki því stórlega mismunað í samanburði við aðrar íþróttagreinar hvað varðar uppbyggingu íþróttamannvirkja, að sögn Skíðaráðs Reykjavíkur.

Undirrituðum finnst þessi samþykkt skjóta nokkuð skökku við, þar sem á fundi á vegum SSH hinn 31. október sl., þar sem skýrsla um áhættumat vegna vatnsverndar í Bláfjöllum var kynnt, vöruðu flestir þeirra sem tóku til máls á fundinum við því að hafin yrði snjóframleiðsla í Bláfjöllum, þar til frekari rannsóknir á Bláfjallasvæðinu í heild sinni hefðu farið fram. Það vekur furðu okkar að Ásgerður Halldórsdóttir, formaður SSH, skuli ætla að þröngva fram ákvörðunum um snjóframleiðslu og líta framhjá þeirri staðreynd að svæðið er á vatnsverndarsvæði.

Það er einkennileg forgangsröðun.

Á fundinum hinn 31. október var jafnframt bent á að skíðasvæðið væri hluti af Bláfjallafólkvangi og það er mikilvægt að skipuleggja svæðið sem heild áður en ákvarðanir eru teknar um einstaka framkvæmdir eða skika, þ.m.t. Þríhnjúkagíg og Heiðmerkursvæðið.

Bláfjallasvæðið er vatnsverndarsvæði höfðuðborgarsvæðisins og treysta íbúar því að fá hreint neysluvatn um ókomin ár. Vatn er mannréttindi og ef við viljum tryggja komandi kynslóðum þau mannréttindi verðum við að gæta þess að spilla ekki vatnsverndarsvæði þeirra.

Það er kominn tími á endurnýjun á ýmsum búnaði í Bláfjöllum og ákvörðun um slíkt virðist byggjast á ákvörðun um snjóframleiðslu. Slíka ákvörðun er ekki hægt að taka fyrr en heildstæðar upplýsingar um vatnsverndina og um áhrif athafna á svæðinu liggja fyrir. Mikilvægt er að hraða slíkri vinnu en hún mun samt taka sinn tíma. Skíðafólk verður að sýna biðlund og vonandi vill það, sem og aðrir íbúar á höfuðborgarsvæðinu, að vatnið njóti vafans þangað til.




Skoðun

Sjá meira


×