Skoðun

Fram á við í móttöku flóttamanna

Íris Björg Kristjánsdóttir skrifar
Flóttamaður er manneskja sem flúið hefur eigið land og er ofsótt vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, félagsstarfa eða stjórnmálaskoðana. Hvort sem flóttinn er vegna stríðsástands eða ofsókna þá á hún að öllum líkindum ekki afturkvæmt og litla möguleika á því að lifa frjáls og óttalaus við núverandi aðstæður.

Flóttamaður getur einnig verið ríkisfangslaus. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna metur neyð fólks og forgangsraðar og á hverju ári kemur ákall frá stofnuninni til alþjóðasamfélagsins og þar með til Íslands um að taka á móti flóttafólki. Þrátt fyrir að reynt sé að gæta öryggis fólks í flóttamannabúðum þá búa alltof margir við hörmulegar aðstæður og við stöðugan ótta. Helsta von fólks er að vera boðin vernd í nýju landi.

Þegar íslenska flóttamannanefndin ákvað að fara inn í flóttamannabúðirnar í Al-Waleed í Írak sýndum við fordæmi sem reyndist skipta verulegu máli: Aðrar þjóðir fylgdu í kjölfarið. Nýlega gaf Sigríður Víðis Jónsdóttir út bókina Ríkisfang: Ekkert og þar segir hún frá konum og börnum sem komu frá flóttamannabúðunum og settust að á Akranesi. Í bókinni lýsir hún kaldranalegum aðstæðum í flóttamannabúðum þar sem möguleikarnir á því að skapa sér viðunandi lífsviðurværi eru engir. Hún segir sögu þeirra og gefur fólki tækifæri til að sjá inn í heim sem flestum er fjarlægur og framandi. Bók Sigríðar Víðis er ómetanlegt framlag til málefna flóttamanna á Íslandi og ekki síður umfjöllunin í kjölfar útgáfu bókarinnar. Hún hefur orðið kveikja að áhuga og umræðum um ábyrgð Íslands og nú er okkar að fylgja því eftir í framkvæmd.

Móttaka kvótaflóttamanna á að vera ofarlega í forgangsröðinni því Ísland er mjög vel í stakk búið að taka á móti flóttafólki. Það er slæmur siður að horfa eingöngu á efnahagslega burði og ávinning af hinu og þessu. Samfélagslegir burðir eru svo sannarlega til staðar á Íslandi. Hér er nægjanlegt landrými, vatn og fæða og undirstöður samfélagsins eru sterkar. Móttökuferlið á Íslandi hefur þótt til fyrirmyndar á margan hátt. Það að vera sjálfstæð þjóð snýst ekki síst um að taka ábyrgð og vera fullorðin í samfélagi þjóðanna. Einn flóttamaður án vonar er einum of mikið.




Skoðun

Sjá meira


×