Skoðun

Verndum Bitru

Björk Vilhelmsdóttir skrifar
Virkjun Bitru hefur neikvæð og óafturkræf áhrif á landslag, útivist og ferðaþjónustu. Um er að ræða lítt snortið, fjölsótt útivistarsvæði í nágrenni þéttbýlis/höfuðborgarsvæðisins og býr svæðið yfir stórbrotnu landslagi sem m.a. einkennist af fjölbreyttri hveravirkni. Fyrirhuguð Bitruvirkjun myndi breyta landslagsásýnd þessa lítt raskaða svæðis í ásýnd iðnaðarsvæðis.

Þetta er ekki bara mitt álit og þess útivistar- og náttúruverndarfólks sem lagt hefur leið sína á austasta hluta Hengilsvæðisins, á Ölkelduháls og eða baðað sig í Reykjadal. Þetta er opinbert og orðrétt álit Skipulagsstofnunar frá árinu 2008 sem skoðaði möguleg virkjunaráform með færustu sérfræðingum. Í kjölfar þess og hundraða athugasemda frá almenningi ákvað stjórn Orkuveitunnar í maí 2008 að falla frá öllum virkjunaráformum á Bitrusvæðinu og að þeirri ákvörðun yrði ekki breytt nema með vilja eigendanna, þ.e. borgarstjórnar og bæjarstjórna þeirra sveitarfélaga sem eiga OR.

Af sömu ástæðum er í drögum að rammaáætlun lagt til að Bitra fari í verndarflokk. Drögin hafa verið til umsagnar og lauk því ferli sl. föstudag. Í umsögn Orkuveitu Reykjavíkur leggur stjórn fyrirtækisins á hinn bóginn til að Bitra fari í biðflokk til að OR hafi „svigrúm til að rannsaka orkukostinn Bitru í framtíðinni með nýtingu í huga þegar meiri reynsla hefur fengist af rekstri Hellisheiðarvirkjunar og væntanlegrar uppbyggingar Hverahlíðarvirkjunar.“

Umsögnin gengur gegn gildandi stjórnarsamþykkt og ekkert samráð var haft um hana við eigendur Orkuveitunnar. Í umsögn umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar sem borgarráð og umhverfis- og samgönguráð taka undir er sérstaklega fagnað þeirri tillögu í rammaáætlun að Bitra verði áfram í verndarflokki.

Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra og Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra munu leggja fram tillögu til Alþingis á grundvelli þeirra umsagna sem bárust um hverju verði raðað í nýtingarflokk, biðflokk eða verndarflokk. Mér þykir miður að þær skuli standa frammi fyrir tvenns konar umsögnum frá borginni og fyrirtæki sem er í miklum meirihluta í eigu borgarinnar. En ég bið ráðherrana og síðan Alþingi að taka sjónarmið Reykjavíkurborgar fram yfir umsögn stjórnar Orkuveitunnar. Eigendur Orkuveitunnar þurfa að ráða því hvaða sjónarmið á að hafa að leiðarljósi til framtíðar. Það er skýr vilji meirihlutaeigandans að þar ráði langtímahugsun, náttúru- og umhverfisvernd. Það á að vernda Bitru.




Skoðun

Sjá meira


×