Skoðun

Bankaleynd

Sverrir Hermannsson skrifar
Menn hafa loks áttað sig á hversu mikilvæg bankaleynd er. Má með vissu telja að leyndin hafi hin síðari misseri verið lífsankeri þjóðar vorrar. Fyrir því verða engin nöfn né númer notuð í stuttri frásögn af umsvifum fyrirtækis, sem búið hefur við „bezta fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi“ síðustu þrjátíu ár.

Eins og hinir 110 útrásarmenn vildi fyrirtækið græða sem mest og gera banka sínum um leið greiða, enda búið að einkavæða hann samkvæmt hugmyndum Hólmsteins. Var þess vegna stofnað aukafélag, án ábyrgðar og eigna, sem keypti hlutabréf í bankanum á margföldu verði til að tryggja afkomu hans enn betur og ábatasöm viðskipti til framtíðar.

Í því skyni var tekið lán hjá bankanum upp á kr. 1.500 milljónir. Við afgreiðslu lánsins upplýsti útibústjóri staðarins forvígismenn um að hann hefði ekki umboð til að afgreiða slíkt lán án veða eða ábyrgðar. Sýndi þeim enda fram á, að þetta væri gulltryggt og þyrftu þeir aldrei að hafa áhyggjur, þótt fyrirtækið gengi í sjálfsskuldarábyrgð fyrir aukafélag sitt. Kvað bankana lána starfsfólki sínu milljarða króna í sama skyni, án þess að nokkru sinni yrði að þeim gengið.

Þetta létu aðaleigendur sér skiljast og gengu í sjálfsskuldarábyrgð fyrir aukafélag sitt. (Innan sviga má geta þess, að slíka glópsku hefðu þeir hjá „Mónu“ á Hornafirði aldrei látið henda sig.)

En bankinn kom heldur en ekki aftan að þeim fjárfestum, þegar þar að kom, og gekk að sjálfsskuldarábyrgðinni. Þessa ósvífni kærðu fiskifurstarnir strax fyrir dómstólum, sem vonlegt var. En dómarar vísuðu málinu frá vegna formgalla. Þá sá bankinn sitt óvænna og afskrifaði skuldina, enda fordæmin mörg hjá fyrirtækjum, sem búa við „bezta fiskveiðistjórnarkerfi í heimi“. Svo mörg reyndar að þau yrðu ekki með góðu móti dulin, enda þótt endurskoðendur væru ekki allir að fetta fingur út í hagræðingu hjá sjávarútvegsfyrirtækjum, né öðrum, nema líf lægi við.

Af þessum iðraþrautum mega menn sjá að vanda þurfti valið á forstjóra nýrrar Bankasýslu og skyggnast rækilega um bekki hjá Framsókn, sér í lagi ef viðkomandi hefur á sínum tíma aðstoðað bankamálaráðherra við afreksverk eins og að koma í lóg VÍS-bréfum Landsbanka Íslands „til rimelige priser“. Banki mismunar engum. Hjá honum er allt tært, glært og gegnsætt uppi á borðum eins og hjá Skjaldborgu vorri, hinum líknsömu og loforðagjörnu landsfeðrum.

Í ruslatunnu, sem staðsett er innan við 15 – fimmtán – metra frá akbraut, fannst bréf frá banka til nafngreinds manns, þar sem bankinn tilkynnti honum að endurgreiðsla vaxta til hans hefði verið framkvæmd með því að greiða kr. 94 – níutíuogfjórar – inn á reikning hans fyrir árin 2008 til 2011. Auk þess sem bankinn hefir mátt snara út burðargjaldi fyrir sendibréfið.

Mikil lifandis ósköp þótti manninum vænt um að sjá í verki ríkjandi jöfnuð fyrir atbeina Skjaldborgar. Það vantar ekki nema 25 – tuttuguogfimm – krónur upp á svo upphæðin nægi fyrir einum potti af undanrennu í Hagkaupum.




Skoðun

Sjá meira


×