Skoðun

Ég er kúgaður millistéttarauli!

Karl Sigfússon skrifar
Það er því miður bláköld staðreynd að ég er kúgaður millistéttarauli. Undanfarin þrjú ár hef ég verið kúgaður af lánastofnunum og stjórnvöldum. Í efnahagsþrengingum landsins hef ég eins og aðrir mátt þola kaupmáttarrýrnun upp á tugi prósenta og skattahækkanir. Því til viðbótar (og það vegur þyngst) hef ég verið rændur af Íbúðalánasjóði gegnum verðtryggingarákvæði lána. Til að bæta gráu ofan á svart hef ég, kúgaði millistéttaraulinn, verið skilinn út undan á meðan útvöldum þjóðfélagshópum hefur verið rétt hjálparhönd með ýmsum hætti.

Það er staðreynd að skuldaúrræði þau sem boðið hefur verið upp á til lausnar á skuldavanda heimilanna fela í sér umfangsmikla og ósanngjarna mismunun. Úrræðin verðlauna fjármálaskussa á kostnað hinna hagsýnu og ábyrgu. Þeir sem skuldsettu hús sín í topp fá lán sín afskrifuð á meðan þeir sem settu sparifé sitt í fasteignakaup og stilltu skuldsetningu í hóf neyðast til að horfa upp á sparifé sitt brenna upp til agna.

Þegar við hjónin keyptum okkur hús vorið 2006 tókum við lán fyrir um 65% af virði hússins, sem á þeim tíma þótti hófleg skuldsetning. Við tókum þá ákvörðun að skuldsetja okkur eins lítið og mögulegt var og setja í staðinn allt okkar sparifé í fasteignina eins og tíðkast hefur hér á landi um áratuga skeið. Einnig vorum við íhaldssöm hvað varðar erlenda skuldsetningu og tókum ¾ hluta lánsins í íslensku verðtyggðu láni frá Íbúðalánasjóði.

Eftir á að hyggja er þetta versta fjárhagslega ákvörðun sem ég hef tekið um ævina. Síðastliðin þrjú ár hef ég horft á allt sparifé fjölskyldunnar brenna upp til agna – allt saman! Fasteignin hefur lækkað í verði um 15% og lánin hækkað um 40% sem í stuttu máli merkir að við skuldum í dag um 107% af virði fasteignarinnar samkvæmt mati viðskiptabanka okkar. Fasteign sem við keyptum fyrir fjórum árum með 65% skuldsetningu.

Árið 2006 stóðu okkur til boða aðrir valkostir en sá sem við völdum. Við hefðum til að mynda getað farið „eyðslu- og glamúrleiðina", það er, skuldsett okkur í botn með erlendu láni, að sjálfsögðu - fyllt húsið af tímalausum hágæðahúsgögnum, tækjum og tólum og jafnvel farið til útlanda einu sinni á ári fyrir afganginn. Hefðum við farið á slíkt „eyðslufyllerí" væri staða okkar síst verri en hún er í dag og í raun betri. Skuldastaða okkar væri 110%, þökk sé Árna Páli og hinni umtöluðu 110% afskriftarreglu. Því til viðbótar hefðum við ekki þurft að greiða nema hluta afborgana af okkar erlenda láni í tvö til þrjú síðastliðin ár sökum óvissu um lögmæti þeirra. Við værum trygg með lága óverðtryggða vexti af húsnæðislánum næstu 5 árin og sennilega sætum við hólpin í rándýrum hönnunarhúsgögnum úr Epal. Ekki slæmt það!

Þegar horft er til þeirra úrræða sem stjórnvöld hafa boðið upp á til að vinna á skuldavanda heimilanna er ljóst að mér er refsað fyrir að sýna hagsýni og varkárni í fjármálum á meðan hinum óábyrgu er bjargað á minn kostnað. Mér finnst að ég sé hafður að fífli fyrir það eitt að hafa lagt allt kapp á að standa við allar fjáhagslegar skuldbindingar mínar, þrátt fyrir breyttar efnahagslegar forsendur. Hvaða skilaboð er verið að senda mér og afkomendum mínum varðandi réttlæti, ábyrgð og heiðarleika sem undirstöðugildi í lýðræðissamfélagi?

Mér líður eins og aula! Hvað með ykkur hin – eruð þið sátt?
Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×