Handbolti

Arnór: Uppsögn þjálfaranna áfall

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Arnór hefur verið að spila vel með AG Kaupmannahöfn í haust.Mynd/ole nielsen
Arnór hefur verið að spila vel með AG Kaupmannahöfn í haust.Mynd/ole nielsen
Íslendingafélagið AG Kaupmannahöfn hefur verið að gera það gott í Meistaradeildinni í haust og er á toppnum heima fyrir þrátt fyrir smá hikst í nokkrum leikjum að undanförnu. Arnór Atlason er fyrirliði liðsins en með því leika einnig Snorri Steinn Guðjónsson, Guðjón Valur Sigurðsson og Ólafur Stefánsson.

Fyrir stuttu ákváðu þjálfarar liðsins, Klavs Bruun Jörgensen og Sören Herskind, að hætta vegna samstarfsörðugleika við þriðja þjálfarann, Magnus Andersson, sem var ráðinn til félagsins í sumar. Arnór segir að sú ákvörðun hafi komið leikmönnum í opna skjöldu.

„Þetta var auðvitað agalegt sjokk því það ríkti mikil ánægja með þjálfarana,“ segir Arnór við Fréttablaðið. „Þeir tveir sem voru fyrir gátu einfaldlega ekki fundið leið til að vinna með Magnusi og sættu sig ekki við að þriðji þjálfarinn kæmi inn. Enda þekkist það hvergi annars staðar í heiminum að byrja leiktíðina með þrjá aðalþjálfara.“

Arnór segir þó að þjálfararnir hafi náð að leyna því fyrir leikmönnum að það væru erfiðleikar í samstarfi þjálfaranna. „Það bitnaði því alls ekki á liðinu. Niðurstaðan var engu að síður sjokk enda liðið búið að tapa bara einum leik undir þeirra stjórn. Þetta kom okkur mjög á óvart.“

Arnór segir að Andersson sé sterkur þjálfari sem honum líki við. „Við höfum þó verið í smá basli í deildinni eftir þetta og ég tel reyndar að það sé ekki hægt að tengja þetta tvennt saman. Við höfum bara ekki verið að spila nógu vel, þó svo að við höfum spilað frábærlega í leikjum okkar í Meistaradeildinni.“

AG tapaði aðeins sínum öðrum leik frá stofnun félagsins á dögunum er liðið lá fyrir Álaborg á heimavelli. „Þar að auki gerðum við jafntefli við SönderjyskE og unnum Skive á lokasekúndunni. En við burstuðum líka Bjerringbro á útivelli og unnum bæði Pick Szeged og Montpellier í Meistaradeildinni. Við erum sem betur fer með reynda leikmenn sem hafa upplifað ýmislegt og við látum þetta ekki á okkur fá.“

AG var stofnað eftir sameiningu FCK og AG Håndbold þann 1. júní en þá hafði fyrrnefnda félagið farið upp um fjórar deildir á jafn mörgum árum. „Þetta er einsdæmi. Þegar liðið var í fimmtu deild var ákveðið að gera þetta lið að Danmerkurmeistara og á fyrsta árinu í efstu deild varð liðið tvöfaldur meistari. Það er ekki hægt að líkja þessu við neitt annað,“ segir Arnór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×