Handbolti

Arnór spilar áfram þrátt fyrir brjósklos í baki

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Arnór Atlason þurfti á meðferð að halda hjá Elís Þór Rafnssyni sjúkraþjálfara eftir æfingu landsliðsins í gær.
Arnór Atlason þurfti á meðferð að halda hjá Elís Þór Rafnssyni sjúkraþjálfara eftir æfingu landsliðsins í gær. Mynd/Anton
„Ég læstist svona agalega í bakinu eftir þriggja mínútna leik í fyrsta leik okkar í Meistaradeildinni í haust. Eftir það fór ég í rannsóknir og greindist með brjósklos í baki,“ sagði Arnór Atlason, landsliðsmaður í handbolta, eftir landsliðsæfingu í gær. Liðið er nú að æfa saman þessa vikuna en Arnór hefur haldið ótrauður áfram að spila með liði sínu, AG Kaupmannahöfn, þrátt fyrir brjósklosið.

„Ég hef oft verið stífur í bakinu og ég man fyrst eftir að hafa fundið fyrir því á Ólympíuleikunum í Peking. Líklega hef ég því verið með brjósklos í einhvern tíma. Síðan ég læstist í bakinu í haust hef ég átt í nokkrum erfiðleikum með bakið og þarf að passa mig sérstaklega.“

Hann segir mögulegt að sleppa við aðgerð með sjúkraþjálfun og styrkingaræfingum fyrir bakið. „Sérfræðingar segja að ég eigi að geta sloppið við aðgerð – það sé enn gott pláss fyrir hryggjarliðina. Ég þarf að vera duglegur að styrkja bakið og vonandi gengur þetta til baka sem fyrst.“

Hann segir að það sé samdóma álit þeirra lækna sem hann hefur leitað til að hann geti náð bata þótt hann spili áfram. „Það er mikið álag fram undan og ég þarf að vera klókur. Ég er þó í fínu formi og mun ekki láta þetta aftra mér. Við eigum mikilvæga leiki fram undan í Meistaradeildinni og ég stefni á að geta beitt mér af fullum krafti í þeim.“

Hann segir að greiningin hafi ekki dregið úr sér kjark. „Alls ekki. Mér hefur tekist að lifa með þessu í einhvern tíma og líkaminn er að öðru leyti vel á sig kominn. Ég hef ekki áhyggjur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×