Handbolti

EM í mikilli hættu hjá Ólafi Stefánssyni

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Ólafur Stefánsson hefur ekki spilað neinn handbolta í vetur og óljóst hvort hann kemst með á EM í janúar.
Ólafur Stefánsson hefur ekki spilað neinn handbolta í vetur og óljóst hvort hann kemst með á EM í janúar. Mynd/Pjetur
Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari hefur miklar áhyggjur af því að Ólafur Stefánsson geti ekki verið með íslenska landsliðinu á EM í Serbíu í janúar. Ólafur meiddist í sumar og er ekki enn byrjaður að spila.

„Að sjálfsögðu vonast ég til þess að Ólafur verði klár í janúar en mesta óvissan af öllum í hópnum er í kringum hann. Það er ekki útséð með það og ég er farinn að undirbúa mig fari svo að Ólafur verði ekki með okkur þar," segir Guðmundur áhyggjufullur en hann tók Rúnar Kárason aftur inn í hópinn núna þar sem Ólafur er fjarverandi.

„Rúnar hefur verið að standa sig mjög vel og hefur tekið miklum framförum frá því að ég sá hann síðast. Þess utan erum við auðvitað með Alexander Petersson og Ásgeir Örn Hallgrímsson. Við erum því ekki á flæðiskeri staddir með örvhenta leikmenn. Við vonumst auðvitað samt eftir því að Ólafur komi með okkur því hann er liðinu dýrmætur. Eins og staðan er núna lítur þetta bara ekki vel út með Ólaf. Hann spilaði síðast handbolta í júní og er ekki enn kominn í gang aftur," segir Guðmundur sem segist ekki vilja vera svartsýnn en hann verði þó að vera raunsær.

„Það hefur komið bakslag í hans meiðsli en vonandi kemst hann í gang sem fyrst. Ég verð engu að síður að vera með varaáætlun á takteinum fari svo að við verðum án hans."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×