Innlent

Talin hafa smitað marga af HIV - beiðni um einangrun synjað

Þetta var í fyrsta sinn sem farið var fram á þessi úrræði af hálfu sóttvarnalæknis og hefur það ekki verið gert síðan.
Þetta var í fyrsta sinn sem farið var fram á þessi úrræði af hálfu sóttvarnalæknis og hefur það ekki verið gert síðan. fréttablaðið/anton
Sóttvarnalæknir telur að mörg HIV-smit megi rekja til konu sem hann fór fram á að yrði sett í tímabundna einangrun árið 2007 þar sem hún væri skaðleg öðrum. Héraðsdómur synjaði kröfu sóttvarnalæknis og fékk konan að fara frjáls ferða sinna.

Konan var virkur sprautufíkill og hélt því fram við sóttvarnalækni til að byrja með að hún treysti sér ekki til að gæta sín úti í samfélaginu.

Sóttvarnalög gera ráð fyrir þessu úrræði, sýni smitaður einstaklingur ekki fram á að hann muni gæta fyllstu ráðstafana til að koma í veg fyrir að smita út frá sér.

Þetta var í fyrsta og eina sinn sem reynt var að beita þessu úrræði hér á landi. Í lögunum segir að þvingunaraðgerðir er varða einangrun smitaðra einstaklinga eigi að vera allra síðasta úrræðið í málum sem þessum. Kröfunni var synjað þar sem konan hélt því fram fyrir héraðsdómi að hún ætlaði að fylgja öllum reglum.

„Dómara þótti ekki hafa verið sýnt fram á að hún hefði smitað neina aðra og hafði hennar orð fyrir því að hún mundi ekki smita aðra," segir Haraldur Briem sóttvarnalæknir. „En talið er að mörg smit megi rekja til hennar."

Haraldur segir að fagaðilar hafi verið að skoða þetta mál að undanförnu og velt því fyrir sér hvort lögin þurfi að vera skýrari hvað þetta varðar, en ekki hefur verið farið fram á formlega endurskoðun þeirra. HIV-smitum meðal sprautufíkla hefur fjölgað mikið hér á landi á síðustu árum.

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra segir að verið sé að skoða hvernig sporna megi við frekari útbreiðslu á smiti. Samráðshópur á vegum velferðarráðuneytisins, SÁÁ, sóttvarnalæknis og fleiri aðila fundi í næstu viku og þá verði hugsanlega einhverjar ákvarðanir teknar varðandi framhaldið.

„Það þarf að ná til þessa hóps til þess að forvarnirnar hafi áhrif," segir Guðbjartur. „Ég tel að öðruvísi hafi meira framboð af nálum og getnaðarvörnum ekki áhrif. En við erum auðvitað tilbúin að ræða það hvernig hægt er að auka aðgengi að hvoru tveggja."- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×