
Eftir að hafa klætt sig, borðað morgunmat, burstað hár og tennur er haldið af stað á leikskólann. Okkar leikskóli er steinsnar frá heimilinu og göngutúrinn er hressandi. Þegar inn er komið fer svo hver að sínu hólfi, hengir upp lopapeysu og buff, raðar skóm eða stígvélum.
Á leikskólanum líður dagurinn við leik og störf við hvers barns hæfi. Skipulagðar samverustundir eru inni og úti þar sem unnið er í stórum og smáum hópum. Félagsfærni og málþroski eru á dagskrá, hreyfing, hlutverkaleikir, söngur. Þetta er vinna leikskólabarnanna. Þau starfa undir styrkri leiðsögn allan daginn, allt þar til mamma og pabbi koma að sækja í lok dags.
Þessa dagana ræða leikskólakennarar og sveitarfélög um launakjör. Meðal annars er rætt um 11% leiðréttingu á launum leikskólakennara sem hafa undanfarin ár dregist aftur úr hliðstæðum stéttum. Til að mynda hafa leikskólakennarar um það bil 25% lægri laun en grunnskólakennarar. Stéttirnar hafa þó hliðstæða menntun og bera sambærilega ábyrgð.
Ef við setjum prósentin ellefu í samhengi þá jafngilda þau um 15 þúsund króna hækkun á útborguð laun leikskólakennara, eftir skatta og launatengd gjöld. Það er varla ein ferð í Bónus.
Allir kennarar vinna mikilvægt starf. Fyrir það eiga þeir skilið þakklæti okkar, virðingu samfélagsins og sanngjörn laun. Leiðrétting á launum leikskólakennara er bæði mikilvæg og sjálfsögð. Við skorum á viðsemjendur leikskólakennara að mæta þeim af sanngirni og leiðrétta laun þeirra í samræmi við menntun, ábyrgð og laun viðmiðunarstétta þeirra.