Skoðun

Stefnumótandi biskupskosningar

Arnfríður Guðmundsdóttir skrifar
Kirkjan okkar stendur á krossgötum. Á næstunni þarf að taka stórar ákvarðanir sem koma til með að ráða stefnu hennar til framtíðar. Unnið er að endurskoðun á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar. Þá þarf að eiga sér stað upplýst umræða á meðal þjóðarinnar um stöðu þjóðkirkjunnar í samfélaginu.

Nú stendur yfir kosning vígslubiskups í Skálholti. Fjórir prestar voru tilnefndir í stöðuna, tvær konur og tveir karlar. Í síðari umferð er kosið á milli tveggja kandidata, konu og karls.

Þetta er í fyrsta skipti sem kona nær svona langt í biskupskosningum hér á landi og á raunhæfan möguleika á að verða biskup þjóðkirkjunnar.

Það liggur fyrir að velja á milli tveggja mjög hæfra einstaklinga. Bæði hafa getið sér gott orð í störfum sínum og eru flottir fulltrúar kirkjunnar okkar, jafnt innan kirkju sem á vettvangi samfélagsins. En kosning í stöðu Skálholtsbiskups snýst ekki aðeins um persónur. Hún snýst líka um prinsip og um stefnumótun í starfi kirkjunnar.

Fyrir tæpum tólf árum tók Jafnréttisáætlun kirkjunnar gildi. Þá sat aðeins ein kona á Kirkjuþingi. Nú eru 11 konur af 29 fulltrúum. Enn er talsvert í land með að fullu jafnvægi sé náð á milli kynjanna, á Kirkjuþingi sem og annars staðar á starfsvettvangi kirkjunnar. Karlar eru meirihluti starfandi presta og prófasta. Allir biskupar þjóðkirkjunnar eru karlar.

Nú stöndum við frammi fyrir því að ákveða hvort einn af þremur biskupum verði kona. Ef kona verður á næstu vikum kjörin til embættis vígslubiskups í Skálholtsbiskupsdæmi er það í fullu samræmi við Jafnréttisstefnu kirkjunnar og mikilvægt skref í átt að því að jafna hlut kvenna og karla í ábyrgðarstöðum á starfsvettvangi kirkjunnar.

Þjóðkirkjan hefur markað sér þá stefnu að jafna hlut kvenna og karla. Það er eðlilegt að kirkjan sé í fararbroddi þegar kemur að jafnréttismálum í íslensku samfélagi.

Þessvegna látum við ekki nægja að kona komist næstum því í Skálholt.

Við skulum kjósa konu í Skálholt.




Skoðun

Sjá meira


×