Skoðun

Réttindi barna

Guðrún Önfjörð skrifar
Umræður um uppeldisumhverfi og uppvaxtaraðstæður barna vekja alltaf tilfinningar. Það er mikill hiti í röksemdum Heimis Hilmarssonar í grein um ný barnalög í Fréttablaðinu þ. 10. ágúst. Röksemdir hans um aðstæður mála á Norðurlöndum hafa ekki stuðning í veruleikanum.

Barnalögum hverrar þjóðar ber að verja réttindi barna og ekki minnst barnsins vegna. Lög um forræði barna við skilnað hafa því miður mest miðað að rétti foreldra og ekki rétti barna. Það er komin mikil reynsla á afdrif barna við skilnað þegar langvarandi ósætti er milli foreldra. Það er einróma niðurstaða mála meðal fagfólks að forræðismál eigi ekki erindi í dómstóla. Dómstólar hafa ekki sérþekkingu til að útkljá slík mál þannig að staða og réttur barnsins hefur verið sniðgenginn á þessum vettvangi.

Svíar innleiddu fyrir nokkrum árum lög um rétt dómara til að dæma sameiginlegt forræði ef foreldrar væru ekki sammála. Svíar hafa nú endurunnið löggjöfina eftir reynslu af þessari tilhögun og dregið til baka dómsrétt um sameiginlegt forræði.

Norðmenn sömdu lagafrumvarp 2009 þess eðlis að sameiginlegt forræði við skilnað væri frumregla. Frumvarpið hafði í sér ákvörðun um rétt dómstóla til að dæma sameiginlegt forræði barna ef foreldrar væru ekki sammála. Eftir nefndavinnu og aðkomu ýmissa fagaðila hefur frumvarpið tekið allmiklum breytingum, þar á meðal hefur dómsúrskurður um forræði verið felldur niður.

Danir hafa fagstofnun í Statsamtet sem tekur að sér öll deilumál milli foreldra við skilnað. Forræðismál fara því ekki í dómsali, nema úrskurði Statsamts sé hafnað. Mér hefur verið tjáð að Danir hafi engin áform um að innleiða rétt dómstóla til að dæma sameiginlegt forræði. Enda myndi það fara á skjön við úrskurði í Statsamti og grafa undan faglegri starfsemi stofnunarinnar.

Reynsla okkar sérfræðinga er að þegar langvarandi deilur milli foreldra eiga sér stað skaðar það barnið/börnin alvarlega. Sameiginlegt forræði þegar foreldrar geta ekki og vilja ekki vinna saman er stríðsvöllur sem hvorki skal bjóða börnum né foreldrum. Hvað þá bjóða með lögum.

Það er reynsla mín eftir 30 ára starfsferil sem klínískur barnasálfræðingur að afleiðingar áralangra erja fráskilinna foreldra enda sem oftast með því að barnið á eftir bara eitt foreldri sem það hefur samband við, stundum ekkert foreldri. Það er réttur barnsins á sambandi við báða foreldra sína sem barnalöggjöfinni ber að verja.




Skoðun

Sjá meira


×