Innlent

Æðarkollan var aflífuð

Æðarkollan var illa á sig komin Flugeldasýningin í Vogum kom þessari kollu í koll í fyrrakvöld.
Æðarkollan var illa á sig komin Flugeldasýningin í Vogum kom þessari kollu í koll í fyrrakvöld. mynd/hilmar bragi
Æðarkolla varð fyrir því óláni að fljúga inn í flugeldaskothríðina þegar boðið var upp á flugeldasýningu í Vogum á Vatnsleysuströnd í tilefni af fjölskylduhátíðinni þar í bæ í fyrrakvöld.

Hrapaði hún úr flugeldahafinu, hafnaði á þaki Stóru-Vogaskóla og rúllaði þar eftir þakinu, eftir því sem fram kemur á vef Víkurfrétta. Menn úr Björgunarsveitinni Skyggni tóku fuglinn síðan upp á sína arma en Kristinn Björgvinsson, formaður björgunarsveitarinnar, sagði í samtali við Fréttablaðið að annar vængur hennar hafi verið svo illa farinn að ekki hafi verið hægt að bjarga henni svo hún var aflífuð.

„Þetta var afar sérstakt, vægt til orða tekið,“ segir hann. Hann segir enn fremur að áhorfendur hafi flestir verið nokkuð langt frá en þeim fáu sem voru í nánd við skólann hafi óneitanlega brugðið þegar kollan skall á þakinu. „Það varð nokkurt fát en við vörpuðum öndinni léttar þegar við sáum að þar var önd í hættu,“ segir hann kankvís.

„Við munum halda svona flugeldasýningu að ári en ég vona að það verði ekki boðið upp á loftgrillaða önd oftar,“ segir hann að lokum. - jse




Fleiri fréttir

Sjá meira


×