Viðskipti innlent

Sameina og selja þarf litlu ríkissparisjóðina

Elín Jónsdóttir
Elín Jónsdóttir
Steingrímur J. Sigfússon
Framtíð þeirra fimm sparisjóða sem ríkið á hlut í er til skoðunar hjá Bankasýslunni. Ákveðið hefur verið að setja hlutinn í Sparisjóði Svarfdæla í opið söluferli og allt bendir til að hið sama verði gert við hlutinn í Sparisjóði Norðfjarðar.

Hjá Bankasýslunni er vilji til að selja ríkishlutina og helst að sameina sjóðina. Elín Jónsdóttir, fráfarandi forstjóri Bankasýslunnar, rifjar upp að þetta hafi verið lagt til í vor, að sameina þessa fimm og einnig þá fimm sparisjóði sem ríkið á ekki hlut í.

„En það voru engar undirtektir hjá sparisjóðunum. Þeir vildu búa til þrjá til fimm sparisjóði í staðinn, sem hefði ekki haft neina þýðingu að okkar mati,“ segir hún.

Síðan fólk frá Bankasýslunni settist í stjórnir sparisjóðanna í vor hafi það svo farið yfir hvað væri til ráða til að koma rekstri þeirra í betra horf.

„Og það er það sem er að gerast núna,“ segir Elín og vísar til ákvarðana stjórna fyrrnefndra tveggja sparisjóða.

Hún jánkar því að sameiginleg yfirbygging, svo sem upplýsingatæknifyrirtækið TERIS, sé sparisjóðunum þung í róðri, sér í lagi eftir að Byr og SpKef hættu þátttöku. Erfitt verði fyrir litlu félögin að reka kerfið í óbreyttri mynd.

Ákvörðun Bankasýslu um sölu á hlut ríkisins í Sparisjóði Svarfdæla var tekin í sömu viku og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sagði í Fréttablaðinu að ekki stæði til að selja sparisjóðina.

Steingrímur segir málið byggt á misskilningi. Hann hafi verið að svara spurningu blaðsins um hvaðan tekjur eigi að koma í ríkiskassann. Ekki sé gert ráð fyrir að óverulegir eignarhlutir ríkisins í sparisjóðunum skili miklum söluhagnaði, verði þeir seldir.

„En ef það koma óskir um það í sparisjóðunum að leita samstarfs við aðra aðila og mögulega selja hlut ríkisins, þá er það alveg opið. Það er ekki markmið að hanga á þeim eignarhlutum ef aðrir eigendur finnast, ég tala ekki um ef það eru heimaaðilar, þá leggjumst við ekki gegn slíku,“ segir hann: „En við erum hins vegar ekki komin að því að ræða slíkt á grundvelli frumkvæðis frá ríkinu.“

klemens@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×