Skoðun

Gengishagnaðurinn til fólksins

Lilja Mósesdóttir skrifar
Frá hruni hefur tekist að ná hallarekstri ríkisins niður um 150 milljarða með sársaukafullum niðurskurði og hækkun skattstofna eins og virðisauka-, fjármagnstekju- og tekjuskatts auk nýrra skatta eins og auðlegðar-, orku- og bankaskattsins svokallaða. Gengishrunið og aukin skattheimta hafa leitt til þess að mörg þúsund heimili ná ekki endum saman og skuldabyrðin hefur þyngst.

Nú er nóg komið. Ríkið þarf að afla tekna með skattheimtu hjá fyrirtækjum sem hagnast hafa á gengishruni krónunnar. Gengi krónunnar hefur undanfarið verið mun lægra en sem nemur væntu meðalgengi. Talið er að gengi krónunnar ætti að styrkjast um 10% til lengri tíma litið og því séu útflutningsfyrirtækin að fá 10% meðgjöf. Skattur sem nemur 10% á útflutningstekjur mun gefa af sér um 80 milljarða í skatttekjur. Minnka á halla ríkissjóðs um 30 milljarða á þessu ári og um 20 milljarða á næsta ári.

Of lágt gengi tryggir rekstur ósjálfbærra útflutningsfyrirtækja sem fara í þrot um leið og gengi krónunnar styrkist um 10%. Með því að skattleggja útflutningsfyrirtæki tryggjum við að sjálfbær störf í mennta- og heilbrigðisgeiranum verði ekki lögð niður fyrir ósjálfbær störf í útflutningi. Sumir telja hins vegar að auðlindaskattur sé betri en skattur á gengishagnað útflutningsfyrirtækja. Hér er verið að bera saman epli og appelsínur. Við sköttum ekki afnot af auðlind til að ná inn skatttekjum af gengishagnaði! Enn aðrir hafa áhyggjur af því að útflutningsfyrirtæki muni flytja starfsemi til útlanda vegna skattheimtunnar. Þá má ekki gleyma því að gengi krónunnar hefur fallið um allt að 80% frá því fyrir hrun og sjávarútvegs- og stóriðjufyrirtæki flúðu ekki land fyrir gengishrapið. Útflutningsskatturinn raskar hvorki rekstrarforsendum né samkeppnishæfni útflutningsfyrirtækja. Að lokum má geta þess að 10% skattur á útflutningsverðmæti mun ekki breyta því að launakostnaður og orkukostnaður hér á landi er mun lægri en almennt gerist í nágrannalöndunum.




Skoðun

Sjá meira


×