Skoðun

Hótel Valhöll - frá berjatínslu til brúðkaupsnátta

Vilborg Halldórsdóttir skrifar
Nú auglýsir Þingvallanefnd eftir hugmyndum landsmanna um það hvernig fólk vill sjá Þingvallasvæðið í framtíðinni. Ég hef starfað sem fararstjóri mörg undanfarin ár og kem því reglulega til Þingvalla með ferðamenn. Í Þingvallasveit hef ég einnig dvalið hvert sumar enda afi minn fæddur og uppalinn í sveitinni.

Það eru aðallega tvö atriði sem ég tel skipta meginmáli í sambandi við framtíðaruppbyggingu á Þingvöllum:

Að ekki verði byggt meir á svonefndu Haki sem er yfirleitt fyrsti viðkomustaður gesta á Þingvöllum. Vernda ber þessa aðkomu enda er hún einstök í veröldinni. Hvergi í heimi sjást flekaskilin betur og væri það til vansa ef þar yrði farið að hrúga niður upplýsingamiðstöðvum þótt lágreistar yrðu. Því vara ég sérstaklega við áformum um meiri uppbyggingu þar, því aðkoman þar er stórkostleg, ég leyfi mér að segja einstök. Fólk sem kemur þarna í fyrsta sinn grípur andann á lofti. Því hefi ég ótal sinnum orðið vitni að.

„Vernda skal náttúrulega ásýnd svæðisins" segir í Aðalskipulagi fyrir svæðið.

Þessi staður, Þingvellir, var upphaflega valinn til að vera samkomustaður þjóðarinnar og hjarta hennar. Þarna skyldu menn safnast saman, ráða sínum ráðum og dvöldu oftlega þar tvær vikur í senn. Enda vildi Jónas Hallgrímsson að þar yrði þingið endurreist og varð tíðrætt um anda Þingvalla.

Þegar Hótel Valhöll brann í júlí 2009 var ekki lengur hægt að gista í þjóðgarðinum nema í tjaldi, engar giftingarveislur, fermingarveislur, stórafmæli eða skírnarveislur var lengur hægt að halda þar. Enginn samkomustaður var þarna lengur til að fagna stóru stundunum í lífinu á sjálfum samkomustað þjóðarinnar frá aldaöðli. Þegar hugað er að uppbyggingu þjónustu þarna, þarf að hafa í huga hvert menn vilja beina gestum. Fyrir Alþingishátíðina 1930 var gistiskálinn á Þingvöllum sem áður hafði verið staðsettur við sjálfa Þingvellina, fluttur undir hamarinn þar sem Hótel Valhöll stóð þar til það brann. Þetta var gert að undirlagi þáverandi húsameistara ríkisins, Guðjóns Samúelssonar. Skálinn sá hafði verið byggður af vanefnum og sífellt klastrað við. Þarna hafði aldrei verið byggt af reisn og vandað til verks.

Í þau óteljandi skipti sem ég hef staðið á Hakinu svonefnda og sýnt ferðamönnum dýrðina sem við blasir; flekaskilin við Hrafnabjörg, Þingvellina, Lögberg, gamla Þingvallabæinn, vatnið… og svo þegar ég segi að hér sé líka gamalt hótel, þá bregst það ekki að hóparnir segja allir sem einn: Hvar!?

Þar liggur snilld Guðjóns Samúelssonar. Hann velur þjónustuskálanum sem síðar varð að Hótel Valhöll þann stað hvar hann fellur best inn í umhverfið og tekur ekkert frá náttúrulegri ásýnd svæðisins. Eiginlega er ekki hægt að sjá hótelið fyrr en ekið er upp að því. Græn hallandi þökin féllu að lit landslagsins og burstirnar kölluðust á við burstir gamla bæjarins.

Hvað ætla menn að gera ef gamli Þingvallabærinn brennur? Banna að endurbyggja – af því staðurinn er á heimsminjaskrá. Ég vek athygli á því að það eru 936 staðir í heiminum á heimsminjaskrá Unesco ( sjá „World Heritage List") og orðið þjóðgarður þýðir ekki að staðurinn eigi að vera eins og múmía í glerskáp á safni. Kynnið ykkur hvernig Skotar skilgreina sína þjóðgarða, sjá Cairngorms og The Trossachs og Loch Lomond National parks. Að sjálfsögðu vilja allir umgangast Þingvelli af virðingu og alúð. En staðurinn má ekki bara vera fyrir útlendinga sem dvelja þar í 45 mínútur af ævi sinni. Þetta er líka okkar staður og þar viljum við geta komið oft og í allskyns erindagjörðum, allt frá berjatínslu til brúðkaupsnáttar.

Því legg ég til að Hótel Valhöll verði endurreist í látleysi sínu á sama stað og því var valinn staður árið 1930. Byggt skal í sama stíl en að þessu sinni vandað til verka eins og gert var á brunareitnum svonefnda á horni Austurstrætis og Lækjargötu. Í hótelinu yrði safnaðstaða og öll sú menningartengda ferðaþjónusta sem menn telja að þurfi að vera til staðar á Þingvöllum, þar sem hjarta þjóðarinnar slær.




Skoðun

Skoðun

Tjáningar­frelsi

Laufey Brá Jónsdóttir,Sigríður Kristín Helgadóttir,Þorvaldur Víðisson skrifar

Sjá meira


×